Raforkukostnaður stórnotenda skerði almennt ekki samkeppnishæfni þeirra

Búrfellsstöð.
Búrfellsstöð. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þýska fyrirtækið Fraunhofer hefur að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins gert úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkukostnaðar. Meginniðurstaðan er að raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi skerði almennt ekki samkeppnishæfni þeirra gagnvart samanburðarlöndunum, sem eru Noregur, Kanada (Quebec) og Þýskaland.

Þetta kemur fram á vef atvinnuvegaráðuneytisins. 

Þar kemur einnig fram, að ekki hafi áður verið gerð sambærileg óháð úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, byggð á aðgangi að trúnaðarupplýsingum um raunverulegt orkuverð í einstökum orkusölusamningum.

Fékk aðgang að trúnaðarupplýsingum um raforkusamninga

Fraunhofer fékk við gerð skýrslunnar aðgang að trúnaðarupplýsingum um raforkusamninga orkuframleiðenda og stórnotenda á Íslandi. Langflestir aðilar sem leitað var til veittu aðgang að umbeðnum upplýsingum og allir stórnotendur utan einn veittu upplýsingar um raforkuverð sitt. Samið var um trúnað við veitingu upplýsinganna og samráð var haft við Samkeppniseftirlitið um verklagið, að því er ráðuneytið greinir frá. 

„Þessi úttekt er þýðingarmikið og upplýsandi innlegg í umræðu sem …
„Þessi úttekt er þýðingarmikið og upplýsandi innlegg í umræðu sem snertir stórfellda hagsmuni fyrir bæði íslenskt efnahagslíf, íslensk fyrirtæki og einstök byggðarlög,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það gefur augaleið að vandasamt er að birta niðurstöðurnar á þann hátt að þær varpi nýju og skýru ljósi á álitaefnið án þess að brjóta gegn trúnaðarákvæðum orkusamninga. Meðaltöl segja aðeins hálfa söguna en á sama tíma er ekki unnt að birta verð einstakra samninga. Því var haft samráð við alla aðila um framsetningu niðurstaðna. Fram komu athugasemdir um fyrirhugaða framsetningu á orkukostnaði álvera og var tekið tillit til þeirra,“ segir í tilkynningunni. 

Samanburðurinn miðast við raforkukostnað árið 2019

Í skýrslunni er raforkukostnaður stóriðju á Íslandi borinn saman við Þýskaland, Kanada (Quebec) og Noreg.

„Við samanburðinn er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur því að Noregur og Kanada eru þau lönd á Vesturlöndum þar sem stóriðja stendur einna best að vígi í alþjóðlegum samanburði, t.a.m. er álframleiðsla á Vesturlöndum hvergi meiri en þar.

Samanburðurinn innifelur alla helstu þætti sem hafa áhrif á raforkukostnað, nánar tiltekið: orkuverð, flutningskostnað raforku, skatta og gjöld og endurgreiðslur vegna kolefniskostnaðar þar sem þær eiga við. Samanburðurinn miðast við nýjustu samanburðarhæfu upplýsingar, sem er raforkukostnaður árið 2019,“ segir í tilkynningunni. 

Hér má nálgast skýrsluna

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK