Icelandair færir sig alfarið í Hafnarfjörðinn

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair …
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, rita undir viljayfirlýsinguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair Group og Hafnarfjarðarbær undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu á höfuðstöðvum Icelandair að Flugvöllum 1 í Hafnarfirði. Starfsemi Icelandair fer nú að hluta til fram á Flugvöllum en ráðgert er að sameina starfsemina og að hún fari að öllu leyti fram í Hafnarfirði eigi síðar en í lok árs 2023. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Það er spennandi að hefja uppbyggingu á nýjum höfuðstöðvum á Flugvöllum í Hafnarfirði þar sem við höfum tækifæri til að sameina starfsstöðvar okkar á höfuðborgarsvæðinu á einum stað og erum jafnframt nær Keflavíkurflugvelli.

Hönnun og skipulag nýrra höfuðstöðva mun taka mið af þörfum starfsemi félagsins nú og til framtíðar og mun reynsla okkar af sveigjanlegu vinnufyrirkomulagi undanfarna mánuði án efa nýtast okkur vel í þeirri vinnu sem starfsfólk alls staðar að úr fyrirtækinu mun taka þátt í,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair í tilkynningunni.

Stefna bæjaryfirvalda að skila sér

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir tíðindin frábær fyrir Hafnfirðinga og Hafnarfjörð.

„Ákvörðun stjórnar Icelandair er staðfesting á því að sú stefna bæjaryfirvalda að bjóða upp á mjög samkeppnishæft umhverfi og góðar aðstæður fyrir fyrirtæki er að skila sér. Starfsemin og húsnæðið mun án efa verða enn ein lyftistöngin fyrir ört stækkandi íbúða- og atvinnuhverfi á fallegum og aðgengilegum stað.“

Núverandi lóð Icelandair að Flugvöllum er tæpir 43 þúsund fermetrar en gert er ráð fyrir stækkun lóðarinnar til vesturs um allt að 6 þúsund fermetra og til austurs allt að 6.500 fermetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK