Marel kaupir framleiðanda fyrir andaiðnað

Marel hefur lokið kaupum á hollenska fyrirtækinu PMJ.
Marel hefur lokið kaupum á hollenska fyrirtækinu PMJ. mbl.is/Hjörtur

Marel hefur gengið frá kaupum á fyrirtækinu PMJ, alþjóðlegum framleiðanda hátæknilausna fyrir andaiðnað. Í tilkynningu til fjölmiðla segir að vöruframboð Marel og PMJ falli vel saman og í sameiningu geti félögin boðið viðskiptavinum í andaiðnaði upp á heildarlausnir fyrir allt vinnsluferlið í iðnaðinum.

Þá segir að Marel muni í kjölfar kaupanna vera í sterkari stöðu til þess að stækka viðskiptavinahóp sinn í andaiðnaði og þannig nýta sitt alþjóðlega sölu- og þjónustunet.

Alþjóðlegur markaður fyrir andakjöt fer ört stækkandi. Áætlað virði markaðarins á heimsvísu er um 6 milljarðar evra, andvirði um 945 milljarða króna, og er um 70% alls andakjöts á Kínamarkaði þar sem Marel er með sterka stöðu og starfsemi, eins og segir í tilkynningunni.

Ánægja með kaupin

PMJ er með 5 milljónir evra í árstekju, andvirði um 780 milljóna króna, og um 40 starfsmenn í starfstöðvum sínum í Opmeer í Hollandi. Stjórnendur PMJ munu áfram starfa hjá félaginu svo að tryggja megi samfellu í rekstri og viðhalda viðskiptasamböndum.

„Við erum mjög ánægð með kaupin. Það er rökrétt skref fyrir Marel að útvíkka þriðju stoðina í kjúklingaiðnaði með því að styrkja starfsemi sína í þróun og framleiðslu lausna fyrir andaiðnað til viðbótar við kjúklinga- og kalkúnaiðnað. Marel og PMJ eiga það sameiginlegt að búa yfir mikilli tækniþekkingu og reynslu á sviði nýsköpunar og þróunar.

Lausnir PMJ búa yfir miklum gæðum sem eru til vitnis um 23 ára reynslu félagsins af nýsköpun í þróun lausna fyrir andaiðnaðinn.  Með því að sameina krafta okkar og  leggja áfram áherslu á nýsköpun erum við í sterkari stöðu til að umbylta andaiðnaðinum í samstarfi við okkar viðskiptavini,“ er haft eftir Roger Claessens, framkvæmdastjóra kjúklingaiðnaðar hjá Marel.

„Við erum stolt af PMJ og þeim árangri sem við höfum náð í samstarfi við okkar starfsfólk og viðskiptavinum út um allan heim. Þegar reynsla okkar, þekking og hágæðalausnir sameinast alhliða þekkingu Marel og alþjóðlegu sölu og þjónustuneti þeirra verðum við í stakk búin til að taka næsta skref áfram og þjónusta okkar viðskiptavini betur en nokkru sinni fyrr,“ er haft eftir Bas van der Veldt, forstjóra PMJ.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK