Ástand vega og fráveitu verst

Vegakerfið er metið í slæmu ásigkomulagi og ekki er útlit …
Vegakerfið er metið í slæmu ásigkomulagi og ekki er útlit fyrir að það muni breytast næsta áratuginn samkvæmt skýrslunni. mbl.is/Helgi Bjarnason

Uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða á Ísland er 420 milljarðar og hækkar um tæplega 50 milljarða frá árinu 2017. Versta staðan er á vegakerfinu og fráveitu, en uppsöfnuð þörf þar er 210-265 milljarðar. Ekki er reiknað með að mikil breyting verði á þessari stöðu næstu 10 ár á heildina litið og á það sérstaklega við um vegakerfið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga sem kynnt var í dag.

Er skýrslan byggð á sömu aðferðafræði og þegar sambærileg skýrsla kom út árið 2017, en þá var uppsöfnuð viðhaldsþörf metin á 372 milljarða. Var viðhaldsþörfin þá metin 14,2% af landsframleiðslu, en er núna 14,5%

Segir í skýrslunni að ónóg fjárfesting undanfarið hafi valdið því að víða sé ástand innviða óviðunandi, en að meðaltali er staða innviða metin viðunandi en ekki góð.

Uppsöfnuð fjárfestingaþörf í innviðum samkvæmt skýrslu SI og FR.
Uppsöfnuð fjárfestingaþörf í innviðum samkvæmt skýrslu SI og FR. Tafla/Samtök iðnaðarins

Vegakerfið og fráveita fá lægstu einkunn í skýrslunni, eða 2 á skalanum 1-5. Það merki að þeir innviðir eru í slæmu ásigkomulagi og starfsemi þeirra í hættu. Segir í skýrslunni að slík einkunn þýði að tafarlausra viðbragða sé þörf svo ekki dragi úr virkni þessara innviða.

Vatnsveitur, dreifikerfi raforku og Keflavíkurflugvöllur fá hins vegar einkunn á bilinu 3,5-4 sem merkir að staða þeirra sé góð og eðlilegt viðhald þurfi til að halda þeirri stöðu óbreyttri. Enginn þáttur innviða fær hæstu einkunn.

Endurstofnvirði innviða hér á landi er í skýrslunni metið á 4.493 milljarða, eða 155% af vergri landsframleiðslu. Hæst er virði samgöngukerfisins sem metið er á 1.525 milljarða. Undir þeirri tölu er vegakerfið, flugvellir og hafnir. Næst þar á eftir er raforkukerfið sem metið er á 1.433 milljarða. Fasteignir í eigu hins opinbera eru metnar á 875 milljarða og veitukerfi fyrir utan raforkukerfið á 615 milljarða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK