Ný vefverslun með áfengi

Sverrir segir að vörurnar séu keyptar víða í Evrópu.
Sverrir segir að vörurnar séu keyptar víða í Evrópu. mbl.is/Colourbox

Vefverslunin Nýja Vínbúðin hóf nýverið sölu á áfengi. Um er að ræða breska vefverslun í eigu félagsins 55 Mayfair Online ltd. Það félag er þó alfarið í eigu Íslendings, en Sverrir Einar Eiríksson athafnamaður er skráður 100% eigandi félagsins. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is.

„Þetta er bara bresk vefverslun sem selur vín og sendir heim að dyrum.“

Sverrir segir að vörurnar séu keyptar víða í Evrópu og í Ameríku og síðan sendar heim að dyrum, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í Evrópu.

Eins og fjallað var um fyrir tveimur vikum voru viðbrögð ÁTVR við netverslun Santewines SAS fremur hörð og hótað var aðgerðum, svo sem lögbanni. Sverrir hefur ekki teljandi áhyggjur af viðbrögðum ÁTVR vegna Nýju Vínbúðarinnar.

„Ég veit bara ekki hvað þeir ættu að gera, þeir hafa enga lögsögu hér í Bretlandi. Mér skilst að það séu um 193 þúsund vefverslanir með vín, varla ætla þeir að loka þeim öllum.“

Stefna á meira úrval en hjá ÁTVR

Fram kemur á heimasíðu vefverslunarinnar að stefnt sé að því að bjóða neytendum upp á vörur á betri kjörum en finnast hér heima og ítrekar Sverrir þetta.

„Ég sé að Sante ætlar að bjóða upp á mikinn afslátt af sínum vörum og við verðum engir eftirbátar þar. Við viljum bara láta fólk njóta betri kjara en verið hefur, vera þá jafnvel með meira úrval en ÁTVR.“

Segist ekki leppur fyrir nokkurn mann

Spurður út í líkindi vöruúrvals Nýju Vínbúðarinnar við vöruúrvalið hjá heildsölunni Karli K. Karlssyni, og hvort um sé að ræða samstarf við hana, segir Sverrir það vera „tilviljun“.

Aðspurður segir hann síður en svo, að fyrirtækið sé leppur fyrir Karl K. Karlsson. „Ég hef aldrei leppað fyrir nokkurn mann. Ég útiloka þó ekki að við gætum haldið samstarfi við Karl K. Karlsson og fleiri fyrirtæki í framtíðinni.“

Sverrir segir í framhaldinu að núverandi fyrirkomulag á áfengissölu hérlendis og einokunarstaða ríkisins í þeim efnum sé einfaldlega úrelt fyrirkomulag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK