Laun verkafólks hækka mest og stjórnenda minnst

Launavísitala hækkaði um 0,4% milli apríl og maí samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,5%, sem er svipaður árstakur og í síðasta mánuði. 

Launavísitala hækkaði um 3,7% í janúar vegna áfangahækkana í kjarasamningum og hefur nú hækkað um samtals 5,1% á fyrstu fimm mánuðum ársins. Ekki hefur verið um almennar launahækkanir að ræða samkvæmt kjarasamningum síðan í janúar og kjarasamningsbundnar hækkanir verða ekki aftur fyrr en í janúar 2022. Síðustu fjóra mánuði hefur launavísitalan hækkað að meðaltali um 0,34% á mánuði án þess að áfangahækkanir kjarasamninga hafi komið til. Það samsvarar 4,2% breytingu á einu ári. Það má því segja að launaskrið á vinnumarkaðnum sé rúmlega 4% á einu ári. 

Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,4% milli maímánaða 2020 og 2021. Launavísitala hækkaði sem áður segir um 7,5% á sama tímabili og var kaupmáttaraukning milli ára þannig 3%. Kaupmáttur launa er þannig áfram mikill í sögulegu samhengi þrátt fyrir töluverða verðbólgu á síðustu mánuðum, að því er fram kemur í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. 

Af starfsstéttum á almenna markaðnum hækkuðu laun verkafólks mest, eða um 13,5% milli ára á 1. ársfjórðungi. Laun stjórnenda hækkuðu minnst, eða um 1,9%. Launavísitalan hækkaði um 11,2% á tímabilinu þannig að einungis laun verkafólks hafa hækkað meira en meðaltalið og laun annarra starfsstétta minna, sérstaklega stjórnenda. Stór hluti hækkunar launavísitölunnar er því á opinbera markaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK