Hraður viðsnúningur í ferðaþjónustu

Það kennir ýmissa grasa á reðasafninu.
Það kennir ýmissa grasa á reðasafninu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ferðaþjónustan virðist vera að koma til baka hraðar en áætlað var og ferðamenn eru þyrstir í að heimsækja skemmtileg íslensk söfn. Hjörtur Gísli Sigurðsson, safnstjóri Hins íslenzka reðasafns, segir að loksins sé aðsókn í safnið að aukast til muna.

„Það er bara bein leið upp loksins; það er stöðug aukning. Við erum með okkar hlutdeild og þetta helst bara í hendur við þann fjölda sem kemur til landsins. Það eru svona 4-5% af þeim ferðamönnum sem koma til Íslands sem heimsækja safnið,“ segir Hjörtur.

Hann segir að ferðamannastraumurinn hafi byrjað í safnið seinni hluta maí en nú í júlí hafi aðsókn margfaldast og hátt í tvo hundruð ferðamenn sótt safnið heim á degi hverjum.

„Við finnum fyrir daglegri aukningu; okkar kúnnar eru 99,5% erlendir ferðamenn þannig þetta er algjörlega háð þeim.“

Hjörtur segir að þau hafi ekki verið viðbúin fyrir þessum hraða viðsnúningi og séu nú undirmönnuð eftir samdrátt vegna faraldursins.

„Við þurftum að draga svo mikið saman í gegnum Covid-tímabilið því þá var allt nánast stopp hjá okkur. Ferðamennirnir sem eru að koma eru alls staðar frá en þetta eru mikið Bandaríkjamenn, sérstaklega í júní en fjölbreytnin er að aukast núna í júlí.“

Bindur vonir við næstu ár

Hann segist vera fullur bjartsýni fyrir komandi mánuði.

„Þetta fer hraðar af stað en maður þorði að vona og hefur skilað sér hraðar til okkar þannig við erum bara bjartsýn.“

Hjörtur bindur vonir við að á næstu tveimur árum verði ferðaþjónustan komin á sama stað og 2018 sem var þeirra besta ár en er ánægður með stöðuna núna.

„Þegar sem flestir heimsóttu safnið komu dagar þar sem sáum 300-400 manns mæta til okkar. Árið 2018 komu 90.000 manns á safnið, þannig þú sérð að það er langt í það. Við erum flutt síðan þá og erum með miklu betri aðstöðu.“

Hann bætir við að árið 2020 hafi verið fyrsta árið í langan tíma þar sem safnið var rekið í tapi en nú horfi til betri vegar. Hann býst við hagnaði á þessu ári og segir að Íslendingar megi vera duglegri að heimsækja safnið.

„Þetta var fyrsta lélega árið í mörg ár en við búumst við hagnaði í ár, þar að auki erum með bestu kaffivél landsins.“

Þóra Matthildur Þórðardóttir, rekstrarstjóri hjá Special Tours sem rekur hvalasafnið á Granda, tekur undir með Hirti og segir aðsóknina hafa verið stigvaxandi síðan í maí og segist hafa séð gríðarlega aukningu á heimsóknum í þessari viku.

„Straumurinn byrjaði í júní og hefur aukist jafn og þétt og núna finnum við virkilega fyrir því að hlutirnir eru byrjaðir að rúlla aftur. Þetta er ekki orðið eins mikið og fyrir Covid en það er allt komið í gang og á réttri leið,“ segir Þóra.

Hún bætir við að þau hafi líklega verið aðeins of bjartsýn.

„Ég held við höfum verið svolítið bjartsýn, við héldum að þetta myndi fara aðeins hraðar af stað í júní en þetta er ekkert langt frá því sem við bjuggumst við.“

Þóra segir að í maí hafi um 90% gesta verið Íslendingar en það hafi aldeilis breyst í júlí þar sem nú eru um 70% gesta safnsins ferðamenn, aðallega frá Bandaríkjunum.

„Suma daga erum við með yfir 200 gesti sem koma til okkar. Við búumst við því að þetta muni halda áfram að aukast í ágúst, svo í september og október ættum við að vera komin á fína siglingu, sérstaklega á meðan landamærin haldast nokkuð opin. Ég held það sé langsótt að búast við að við verðum á sama stað og fyrir Covid strax. Ætli það taki ekki 2-4 ár að ná því. Þetta fer alla vega vel af stað og við vonum það besta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK