„Þarf að taka þetta einn bita í einu“

Ný stjórn er tekin við Icelandair.
Ný stjórn er tekin við Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta eru krefjandi tímar en það eru mörg áhugaverð og spennandi verkefni fram undan,“ segir Guðmund­ur Haf­steins­son, nýr stjórnarformaður Icelandair. Guðmundur er stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Fractal 5 og starfaði þar áður sem yfirmaður í vöruþóun hjá Google. Hann hefur setið í stjórn Icelandair frá árinu 2018. 

Guðmundur Hafsteinsson, nýr stjórnarformaður Icelandair.
Guðmundur Hafsteinsson, nýr stjórnarformaður Icelandair. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur segir að nýjustu tíðindi af fjölgun Covid-19-smita komi félaginu ekki það mikið á óvart. „Það er búin að vera óvissa sem verður áfram. Það góða við félagið er hversu sveigjanlegt það er og vel í stakk búið til þess að bregðast við breytingum. Við höldum því auðvitað bara áfram,“ segir Guðmundur og bætir við að félagið sé stöðugt að meta stöðuna. 

Býstu við því, miðað við hvernig staðan er í dag, að farþegum muni fækka?

„Eins og staðan er í dag er rosalega erfitt að segja til um nákvæmlega hvernig hlutirnir þróast. Við metum þetta á hverri stundu eins og hefur verið allan heimsfaraldurinn. Það þarf að taka þetta einn bita í einu, meta stöðuna og vera sveigjanlegur,“ segir Guðmundur og nefnir að mikilvægt sé að félagið geti brugðist við breyttum aðstæðum og sé við öllu búið. 

Byggja upp framtíðarplön

„Við erum stöðugt að byggja upp framtíðarplönin og horfa til langtímaáforma félagsins,“ segir Guðmundur og bætir við að allt stefni í rétt átt. „Það koma alltaf upp einhverjir hikstar og hnökrar á leiðinni en við erum að sigla út úr þessu.“

Guðmundur tekur við stjórnarformennskunni af Úlfari Steindórssyni sem stígur til hliðar eftir tíu ára stjórnarsetu. Úlfar hverfur úr stjórn til þess að búa til pláss fyrir Matt­hew Evans, fram­kvæmda­stjóra Bain Capital Cred­it, sem er nú er orðinn stærsti hlut­hafi Icelanda­ir með 16,6% hluta­fjár.

Guðmundur þakkar Úlfari kærlega fyrir vel unnin störf. „Það er mikil söknuður að missa hann úr stjórn en á sama tíma spennandi að fá Matthew inn. Stjórnin var og er áfram gífurlega sterk. Bæði stjórnarteymið og starfsmenn hafa staðið sig ótrúlega vel í gegnum óvissutímabil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK