„Ferðaþjónustan er vöknuð úr dvala“

Hagspáin gerir ráð fyrir 720 þúsund erlendum ferðamönnum á Íslandi …
Hagspáin gerir ráð fyrir 720 þúsund erlendum ferðamönnum á Íslandi í ár, 1,5 milljónum á næsta ár, 1,8 milljónum árið 2023 og 2,1 milljón árið 2024. mbl.is/RAX

„Efnahagsbatinn er hafinn af fullum krafti og það er nokkuð bjart framundan. Ferðaþjónustan er vöknuð úr dvala, horfur eru á sérstaklega góðri loðnuvertíð og ýmis ytri skilyrði eru okkur hagfelld,“ sagði Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, við kynningu þjóðhags- og verðbólguspár deildarinnar fyrir árin 2021-2024.

Hagspá Landsbankans gerir ráð fyrir samfelldu hagvaxtarskeiði á spátímabilinu; 5,1% á þessu ári, 5,5% á næsta ári, 1,7% árið 2023 og 2% árið 2024. Hagvöxturinn er drifinn áfram af vexti í ferðaþjónustu og stórri loðnuvertíð snemma á næsta ári. 

Landsbankinn spáir að áhrif loðnuveiðanna á næsta ári muni hafa 1,7 prósentustiga jákvæð áhrif á hagvöxt, að öðru óbreyttu.

Þá gerir hagspáin ráð fyrir 720 þúsund erlendum ferðamönnum á Íslandi í ár, 1,5 milljónum á næsta ári, 1,8 milljónum árið 2023 og 2,1 milljón árið 2024. 

Atvinnuleysi gangi til baka að fullu

„Atvinnuleysi minnkar hratt og við gerum ráð fyrir að árið 2024 verði atvinnuleysi minna en það var áður en faraldurinn skall á. Við stöndum engu að síður frammi fyrir ýmsum áskorunum. Ein sú stærsta er að rétta af hallann á ríkissjóði sem hefur tekið á sig miklar byrðar. Þá mun kröftugur efnahagsbati og þrálát verðbólga knýja á um töluverða hækkun stýrivaxta, áður en aðstæður skapast til að lækka þá á nýjan leik,“ segir Daníel Svavarsson. 

Á fyrri helmingi ársins jókst landsframleiðslan hér á landi um 3,5%, sem helgast af miklum vexti á öðrum ársfjórðungi en á fyrsta ársfjórðungi varð smávægilegur samdráttur. 

Þá spáir hagfræðideild Landsbankans að útflutningur aukist um 18%, einkaneysla um 5% og heildarfjármunamyndun um 10,8% og að laun muni áfram hækka töluvert næstu tvö árin, m.a. í ljósi þess að útlit er fyrir að ákvæði kjarasamninga um sérstaka hagvaxtarauka þann 1. maí bæði árin 2022 og 2023 verði virk, gangi hagvaxtarspáin eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK