„Sterkari tenging hefði komið í veg fyrir skerðingu“

Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Hari

Þeir geirar sem verða fyrir hvað mestum áhrifum af slæmri stöðu vatnsbúskaps hjá Landsvirkjun og ákvörðun fyrirtækisins að skerða vegna þess skerðanlega orku sem fyrirtækið selur eru álver, kísilver og fjarvarmaveitur, auk gagnavera.

Vatnsárið í Þórisvatni er sérstaklega slæmt, en þar er vatnsstaðan í ár á við neðstu 5% vatnsára á síðustu 55 árum. Það þýðir að einungis 2-3 önnur ár hafa verið jafn slæm á því tímabili. Vatnsstaða allra lóna fyrirtækisins er þó enn innan vikmarka, en þurr tíð og snemmbúinn vetur ráða því hversu vatnsbúskapurinn er slæmur.

Þetta segir Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is.

Fyrr í dag sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að staða vatnsbúskaps Landsvirkjunar hafi ekki verið jafn slæm frá árunum 2013-14, en þann vetur var raforka til stórnotenda með sveigjanlega raforkusamninga síðast takmörkuð.

Er nú gert ráð fyrir að miðlunarforðinn sé um 600 GWst lakari en áramótin 2020/21 og gerir fyrirtækið ráð fyrir að þurfa að skerða raforku um 250 GWst umfram þær 200 GWst sem fiskimjölsverksmiðjur hafa þegar verið skertar um.

Hörður segir að með fjarvarmaveitur þá sé lítill hluti heimila sem treysti á þær, en það sé aðallega á Vestfjörðum og Suður- og Suðvesturlandi þar sem þær séu notaðar. Hann bendir hins vegar á að á einhverjum stöðum hafi menn fært sig frá fjarvarmaveitum. Meðal annars hafi í Höfn verið tekin í notkun nýlega hitaveita og í Vestmannaeyjum hafi varmadælur verið teknar í notkun sem dragi úr raforkuþörf.

Þórisvatn komið niður í lággildi

Spurður hvort árið í ár sé komið undir vikmörk sem félagið noti í sínum áætlunum segir Hörður svo ekki vera. „Þetta er allt innan vikmarka enn þá.“ Hálsalón fyrir austan og Blanda standi enn nokkuð vel og séu við miðgildi, en í tilfelli Þórisvatns sé komið niður í lággildi og þar sé vatnsárið meðal lökustu 5% síðustu 55 árin.

Sigöldustöð er meðal virkjana á Þjórsársvæðinu sem virkja orku úr …
Sigöldustöð er meðal virkjana á Þjórsársvæðinu sem virkja orku úr vatni sem kemur úr Þórisvatni. Ljósmynd/Landsvirkjun

Hörður segir að Þórisvatn hafi ekki náð að fyllast í haust. Slíkt geti og hafi áður gerst, en til viðbótar hafi verið mjög þurr tíð síðan og veturinn hafi jafnvel komið nokkuð snemma. Þá hafi lítið verið um leysingar á hálendinu. Vegna þessa sé innstreymið í lágmarki.

„Duttlungar náttúrunnar að glíma við“

„Þetta eru duttlungar náttúrunnar að glíma við,“ segir Hörður. „Það myndi hjálpa mikið ef það rignir eða hlánar, en við getum ekki gert ráð fyrir því,“ bætir hann við. Landsvirkjun verði að gera ráð fyrir verstu spá og að veturinn geti orðið erfiður. Hörður tekur hins vegar fram að ef sviðsmyndin breytist, það komi talsvert innstreymi í vetur, t.d. með mikilli úrkomu eða ef það hlánar, þá gæti staðan breyst. Í janúar og febrúar séu hins vegar minnstar líkur á að það gerist.

Þetta er í annað skiptið á um áratug þar sem skerða þarf raforku vegna slæmra ára í vatnsbúskap. Spurður hvort hann telji þetta meiri fjölda en fyrirtækið geri ráð fyrir alla jafna segir Hörður svo ekki vera og að hann telji tvö ár af tíu vera innan marka og eðlilega sveiflur sem búast megi við.

Áhrifin núna hafi hins vegar aukist þar sem raforkukerfið sé þegar fulllestað og umfram eftirspurn eftir raforku. „Frá miðju síðasta ári hefur verið fullt álag á kerfinu og mikil eftirspurn eftir orku. Það kemur til viðbótar við lágt innrennsli,“ segir hann.

Segir stöðuna kalla á frekari virkjanakosti

Hörður segir að staðan kalli á frekari virkjanamöguleika. Ofan á fulllestað kerfi komi orkuskipti og væntanlegur vöxtur hagkerfisins. Hann tekur hins vegar fram að vatnsárið núna eitt og sér sé ekki það sem ýti á um frekari virkjanir, heldur fyrrnefndar framtíðahorfur og vöxtur samfélagsins. Þá segir hann einnig að ekkert í mati Landsvirkjunar bendi til þess að minnkandi stærð jökla sé að hafa áhrif á innflæðið í ár. Um sé að ræða eðlilegar sveiflur á innrennsli innan þekktra sögulegra viðmiða.

Betri tenging milli landshluta hefði komið í veg fyrir skerðingu

Dreifikerfi raforkunnar er önnur hlið málsins þegar kemur að raforkunotkun hér á landi. Hörður segir að ef flutningsgetan frá Norðurlandi til Suðurlands væri betri hefði verið hægt að leysa stöðuna eins og hún er í dag. „Sterkari tenging hefði komið í veg fyrir skerðingu,“ segir hann. Vísar hann þar til þess að horft hafi verið til þess að styrkja raforkuflutning yfir Holtavörðuheiði.

Til að mæta þeirri auknu raforkuþörf sem nefnd er hér að ofan segir Hörður að Landsvirkjun sé með nokkra virkjanamöguleika á teikniborðinu til skemmri tíma. Þó verði að hafa í huga að þar taki ákvörðunarferli alltaf um eitt ár sé undirbúningsvinna og leyfi til staðar og svo 3-4 ár að reisa virkjunina. Hann nefnir fimm möguleika í þessu sambandi sem Landsvirkjun horfi til.

Fimm kostir á skammtímalistanum

Fyrst sé um að ræða Hvammsvirkjun í Þjórsárdal, en gert er ráð fyrir að hún gæti framleitt um 95 MW.  Þá sé stækkun á Þeistareykjum talin geta skilað um 50 MW og Blönduveita um 35 MW. Til viðbótar séu vindorkugarðar til skoðunar við Búrfell og við Blöndu. Samanlagt um 50-100 MW.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK