Mesta hækkun frá hruni

Fasteignamat hækkar um 19,9%. Hækkunin er sú mesta eftir hrun, …
Fasteignamat hækkar um 19,9%. Hækkunin er sú mesta eftir hrun, en í fyrra nam hækkunin um 7,4%. mbl.is/Sigurður Bogi

„Framboð á íbúðarhúsnæði er minna en eftirspurnin. Við höfum heyrt í fjölmiðlum núna að það vanti fleiri íbúðir á markaðinn og það er er spenna á markaðnum sem veldur auðvitað hækkun á verði,“ segir Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteigna Þjóðskrár, um hækkun fasteignamats um 19,9% og bendir á nýlega skýrslu starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði en í henni kemur fram að eftirspurn eftir húsnæði á Íslandi er langt umfram framboð.

Tryggvi segir að hækkunin sé gríðarleg en þetta er mesta hækkun fasteignaverðs eftir hrun. Næst mesta hækkunin var árið 2017, þegar hækkunin nam í heild 13,8% og hækkun íbúðarhúsnæðis var 15,6%.

Minni ráðstöfunartekjur almennings 

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að ef álagningarprósenta sveitarfélaga verði ekki lækkuð vegna hækkun fasteignamats þá gæti það kælt hagkerfið með því að þétta opinberu fjármálin, þ.e. tekjur sveitarfélaganna aukast, og með því að minnka ráðstöfunartekjur almennings.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend

„Ef að skattprósenta verður ekki lækkuð þá gætir náttúrulega töluverðs tekjuauka hjá flestum sveitarfélögum og auðvitað hærri skattbyrði á fasteignaeigendur. Það veltur allt á því hvernig sveitarfélögin bregðast við,“ segir hann.

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, tekur í svipaðan streng og segir að hækkun fasteignamats geti leitt til hækkunar á fasteignagjöldum ef að sveitarfélög lækka ekki álagningarprósentu til að stemma stigu við hækkunina, en þá hækkar skattbyrði fasteignaeiganda.

Markaðurinn kominn að þolmörkum

Bergþóra segir að það geti reynst örðugt að segja til um hver áhrifin á hækkun fasteignamats séu á verðbólgu, enda endurspeglar fasteignamatið markaðsverð afturvirkt. Hún telur að þetta hafi ekki gríðarleg áhrif til skemmri tíma á verðbólguna eða íbúðarverðið, en að áhrif hækkunar fasteignamats verði hægt að sjá betur eftir því sem að líður af ári. Hún bendir hins vegar á að fasteignasalar hafi nýtt sér hækkun fasteignamats til þess að selja eignir á hærra verði.

„Í fullkomnum heimi ætti þetta ekki að hafa nein áhrif á íbúðarverð fram á við en vissulega er stundum nýtt fasteignamatið til að selja eignir á hærra verði. Við erum náttúrulega bara í rosalegum hækkunum nú þegar og það er spurning hvort að við séum komin að þolmörkum varðandi íbúðarverðið,“ segir hún.

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK