Vilja að stjórn skýri málið á hluthafafundi

Hópur hluthafa í Festi hefur rætt það sín á milli að óska eftir hluthafafundi í félaginu vegna óánægju með þá ákvörðun stjórnar að víkja Eggert Þór Kristóferssyni úr starfi forstjóra félagsins. Morgunblaðið hefur rætt við hóp hluthafa, bæði einkafjárfesta og lífeyrissjóða, sem furða sig á ákvörðun stjórnar og tímasetningu brottrekstrarins.

Þá þyki ljóst að sú tilkynning sem send var til Kauphallarinnar í síðustu viku, þar sem fram kom að Eggert Þór hefði sjálfur tekið ákvörðun um að segja starfi sínu lausu, sé villandi og sendi röng skilaboð inn á markaðinn. Þá herma heimildir blaðsins einnig að ekki hafi verið eining innan stjórnar vegna málsins, en að þau Guðjón Reynisson og Margrét Guðmundsdóttir, formaður og varaformaður stjórnar, hafi fylgt málinu eftir af festu.

Eins og greint var frá í ViðskiptaMogganum í gær, ríkir pirringur meðal hluthafa þar sem engar skýringar hafa fengist á þessari ákvörðun stjórnar eða tilefni þess að skipta um forstjóra í félaginu. Til að knýja fram hluthafafund þurfa eigendur 10% hluta félagsins að óska eftir því. Lífeyrissjóðir eiga um 70% hlut í félaginu en það verður að teljast ólíklegt að þeir samþykki eða taki þátt í því að kalla eftir hluthafafundi, jafnvel þótt þeir styðji hugmyndina. Það er því undir einkafjárfestum komið að safna saman undirskriftum 10% eigenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK