Eini bóluefnaframleiðandinn getur mætt eftirspurn

Höfuðstöðvar Bavarian Nordic eru í Hellerup í Danmörku.
Höfuðstöðvar Bavarian Nordic eru í Hellerup í Danmörku. AFP

Danska líftæknifyrirtækið Bavarian Nordic er eini framleiðandi samþykkts bóluefnis gegn apabólu. Pantanir hafa hrannast inn til fyrirtækisins að síðustu enda hefur sjúkdómurinn breiðst um allan heim á stuttum tíma.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í lok maí að bóluefnið myndi koma til Íslands á einhverjum tímapunkti. Hann kvaðst þá binda vonir við það að það kæmi hingað til lands eins fljótt og auðið er.

„Samþykkið sem við fengið árið 2019, þegar við seldum bara nokkur hundruð skammta, varð allt í einu mjög mikilvægt fyrir heilsu á heimsvísu,“ segir varaforseti Bavarian Nordic, Rolf Sass Sorensen. 

Geta mætt núverandi eftirspurn

Það kom fyrirtækinu í opna skjöldu þegar sjúkdómurinn fór á þessu ári að breiðast til fjölda landa utan Vestur- og Mið-Afríku en sjúkdómurinn hafði almennt verið bundinn við þau landsvæði. Þrjú apabólusmit hafa greinst á Íslandi. 

Sorensen er samt sem áður viss um að fyrirtæki hans geti mætt alþjóðlegri eftirspurn þrátt fyrir að það hafi einungis eina framleiðslustöð. 

„Við getum auðveldlega mætt núverandi eftirspurn á alþjóðavísu. Við eigum nokkrar milljónir skammta sem við getum sett í hettuglös og tryggt með þeim hætti að núverandi faraldur sé meðhöndlaður,“ sagði Sorensen. 

Bavarian Nordic getur framleitt 30 milljónir bóluefnaskammta á ári hverju. 

Þá segir Sorensen að nú þegar eigi nokkur lönd skammta af bóluefninu.

Örfáir týna lífi vegna apabólu

Þrátt fyrir útbeiðslu apabólu hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ekki mælt með fjöldabólusetningu gegn apabólunni. Flestir jafna sig á apabólusmiti á nokkrum vikum og hefur sjúkdómurinn einungis dregið örfáa til dauða. Frá byrjun árs hafa 2.103 smit verið skráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK