Controlant valið Vaxtarsproti ársins

Frá verðlaunaafhendingunni í Grasagarðinum.
Frá verðlaunaafhendingunni í Grasagarðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirtækið Controlant hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, afhenti Vaxtarsprotann í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal.

Controlant er alþjóðlegt fyrirtæki sem þjónustar mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heimsins. Hjá fyrirtækinu starfa 390 einstaklingar frá yfir 40 löndum. Velta fyrirtækisins jókst um 929% á milli áranna 2020 og 2021 þegar veltan fóru úr 865 milljónum króna í 8,9 milljarða króna, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Þessi viðurkenning mun hvetja okkur áfram á vegferð okkar í að útrýma sóun í einni af mikilvægustu virðiskeðju í heimi. Á 15 árum hefur Controlant vaxið og dafnað frá því að vera hugmynd í að vera sproti sem náði að skjóta rótum. Til að vaxa þarf sproti að vera í góðum aðstæðum, með næringarríkum jarðvegi og skapandi umhverfi,“ segir Gísli Herjólfsson, einn stofnanda og forstjóri Controlant, í tilkynningunni.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins, í Grasagarðinum.
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins, í Grasagarðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við hjá Controlant viljum nota þetta tilefni til að þakka nýsköpunarsamfélaginu á Íslandi fyrir stuðninginn og hvatninguna undanfarin ár og sérstaklega minna á hversu mikilvæg og nauðsynleg endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar er fyrir nýsköpun á Íslandi. Að okkar mati er það ein af grunnforsendum fyrir nýsköpun og því að Ísland viðhaldi samkeppnishæfni auk þess að að vera frábær fjárfesting fyrir íslenska ríkið og samfélagið í heild. Ég vil þakka starfsfólki Controlant fyrir þann frábæra árangur sem við höfum náð með þrautseigju, hugviti og samheldni," bætir Gísli við.

Sidekick Health og Coripharma hlutu viðurkenningar

Tvö önnur fyrirtæki, Sidekick Health og Coripharma, hlutu einnig viðurkenningar. Sidekick Health, sem sérhæfir sig í heilbrigðistækni, hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir góðan vöxt í veltu. Veltan jókst um 160% á milli ára, fór úr 250 milljónum króna í 650 milljónir króna milli 2020 og 2021.

Coripharma hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir að velta í fyrsta sinn einum milljarði króna. Velta Coripharma fór í fyrsta skipti yfir einn milljarð króna á síðasta ári, fór úr 888 milljónum króna árið 2020 í 1,3 milljarða króna 2021. Coripharma sérhæfir sig í framleiðslu og þróun lyfja fyrir önnur lyfjafyrirtæki um heim allan, ásamt því að þróa sín eigin lyf.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 16. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Í dómnefnd voru Gísli Hjálmtýsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannís, Kolbrún Hrafnkelsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK