„Skylda mín að kynna hugmyndirnar sem ég stend fyrir" - Áslaug Arna dreifði riti til landsfundargesta

Áslaug Arna sést hér dreifa ritinu til landsfundargesta um síðustu …
Áslaug Arna sést hér dreifa ritinu til landsfundargesta um síðustu helgi. Eggert Jóhannesson

Það var umtalsverð athygli á formannskjör í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi flokksins um síðustu helgi. Það sem vakti þó einnig athygli landsfundargesta var þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, dreifði þar nýútgefnu riti til viðstaddra.

Mbl.is leitaði eftir upplýsingum um það hvaða rit var um að ræða og tilganginn með því að gefa það út og dreifa á landsfundi.

Að sögn Áslaugar Örnu kynnti hún ritið í ríkisstjórn á dögunum, en það byggir á framtíðarsýn hennar og væntanlegri tillögu um stefnumarkandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi og hennar pólitísku sýn á málið.

„Tillagan snýr að því hvað við þurfum að gera til að verða öflugara þekkingarsamfélag og að efnahagslífið hvíli á fleiri stoðum. Ef svo má verða þarf að ná víðtækri sátt um þær aðgerðir sem ráðast þarf í,“ segir Áslaug Arna í samtali við mbl.is.

„Ég hef sett fram þá sýn að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum er að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Með því að virkja betur hugvitið getum við komið í veg fyrir of miklar sveiflur í hagkerfinu og skapað fjölbreyttari og spennandi störf.“

Hugsa lengra en í kjörtímabilum

Áslaug Arna segir að hún hafi, frá því að ráðuneytið var stofnað í febrúar á þessu ári, fundið fyrir miklum áhuga fólks á nýja ráðuneytinu og verkefnum þess. Hún hafi hitt allar undirstofnanir og fundað með yfir 400 aðilum til að setja fram skýra stefnumótun. Þar af voru fjórðungur funda á landsbyggðinni. Margar af þeim hugmyndum sem komi fram hafi mótast í nýju vinnulagi í ráðuneytinu þar sem hún á náið og mikið samstarf við sérfræðinga á öllu málefnasviðum.

„Ekki bara um verkefni hversdagsins heldur miklu frekar um hvaða árangri við getum náð fyrir Ísland. Það að byggja upp nýtt ráðuneyti felur í sér fjölmörg tækifæri og ég met það mikils að vera treyst fyrir svona mikilvægum málaflokkum,“ segir hún.

„Eitt kjörtímabil er ekki langur tími. Til að ná árangri á þeim tíma er óhjákvæmilegt annað en að hafa skýrar hugmyndir strax frá upphafi og vel mótaða aðgerðaráætlun sem unnið er að. Á sama tíma þurfum við að setja okkur lengri tíma sýn og þora hugsa lengra en í kjörtímabilum.“

- En af hverju að gefa út sérstakt rit um störf þín og stefnu?

„Ég finn til ábyrgðar gagnvart málaflokkunum sem ég ber ábyrgð á og ég vil vanda mig. Þess vegna hef ég nýtt síðustu mánuði til að leggja drög að stefnumarkandi aðgerðum til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi. Mér finnst það vera skylda mín að kynna hugmyndirnar sem ég stend fyrir vel og þær fyrstu birtast nú skýrt í þessu riti,,“ segir Áslaug Arna en ritið ber titilinn Árangur fyrir Ísland.

„Rauði þráðurinn í ritinu er sá að ég trúi á Ísland og að við getum gert betur,“ bætir hún við.

„Ég er viss um að hér getur verið best að búa en ég er líka sannfærð um að við getum gert miklu betur, bætt samfélagið og eflt lífskjörin enn frekar. Lykillinn að því er að við virkjum miklu betur okkar dýrmætustu en um leið vannýttustu auðlind, hugvitið. Þannig getum við náð meiri árangri.“

Var ekki á leið í framboð

Áslaug Arna segir að ritinu sé fyrst og fremst ætla að skapa umræðugrundvöll og að stefnt sé að því að efna til opins samráðs um tillögu til þingsályktunar sem hún muni setja í samráðsgátt stjórnvalda og í kjölfarið leggja fram á Alþingi. Stöðu hvers málaflokks er lýst ásamt styrkleikum og veikleikum hvers málaflokks, sett eru fram meginmarkmið og að því loknu reifaðar þær aðgerðir sem ætlunin sé að vinna að á kjörtímabilinu.

„Ég tel að stjórnmálamenn eigi að leggja fram skýr skilaboð og vera ófeimnir við að tala fyrir þeim stefnumálum sem þeir standa fyrir. Það er auðvitað hægt að gera það með ýmsum hætti, en í þessu tilviki taldi ég við gott að gefa út ritið til samtals um þessa framtíðarsýn. Ég skynja ákveðnar væntingar til ráðuneytisins og þeirra verkefna sem við erum að vinna að en um leið kallar fólk eftir skýrri sýn og frekari upplýsingum,“ segir Áslaug Arna.

„Með þessu riti legg ég vonandi eitthvað af mörkum til umræðan um þessa mikilvægu framtíðarmálaflokka verði spennandi og ýti undir það að hugmyndir verði til og komist á flug. Ég vil hvetja fólk að kynna sér efni þess og koma tilbaka með hugmyndir og ábendingar.“

Margir héldu að Áslaug Arna væri að undirbúa framboð á landsfundinum, en svo var þó ekki.

„Það héldu það kannski einhverjir en ég var mjög skýr með það að ég studdi sitjandi formann og varaformann í embættum sínum,“ segir Áslaug Arna létt í bragði en hún sagði landsfund vera einstakt tækifæri til að kynna stefnumálin sín og fá fram sjónarmið og athugasemdir.

Þess má geta að ritið er aðgengilegt á heimasíðu hennar, aslaugarna.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK