Blue-bræður opna Brons í Keflavík

Bræðurnir Þorsteinn og Magnús Sverrir Þorsteinssynir við barinn á Brons.
Bræðurnir Þorsteinn og Magnús Sverrir Þorsteinssynir við barinn á Brons. Ljósmynd/Aðsend

Bræðurnir Þorsteinn og Magnús Þorsteinssynir ásamt eiginkonum sínum þeim Guðrúnu Sædal Björgvinsdóttur og Elísu Ósk Gísladóttur, opnuðu á dögunum afþreyingarstaðinn Brons í Keflavík. Saman hafa bræðurnir rekið bílaleiguna Blue um árabil.

„Undanfarin ár hafa öll okkar viðskipti verið í kringum erlenda ferðamenn. Núna eru viðskiptavinirnir Keflvíkingar og það verður gaman að gera eitthvað fyrir samfélagið,“ segir Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið.

„Það væri hægt að kalla þetta „ölþróttastað“; íþróttir tengdar við öl. Þetta er sportbar og boðið er upp á pílukast. Við erum ekki að finna upp hjólið, en við erum fyrstir til að taka utan um sportið og píluna af einhverju viti hér í Keflavík.“

Brons er til húsa í gömlu bókabúðinni við Sólvallargötu í Keflavík, en elsti hluti hússins er frá því snemma á síðustu öld. Búið er að gera umfangsmiklar breytingar á húsnæðinu bæði innan og utan, en blár og bronslitur eru í burðarhlutverki í allri hönnun staðarins að innanverðu, og vísar því til beggja fyrirtækja þeirra bræðra. Nafnið Brons er dregið af sérkeflvísku hugtaki, sem vísar í sögnina að „bronsa“, sem þýðir að sögn Þorsteins að halda bolta á lofti.

Pílukast og pílubarir hafa rutt sér til rúms í skemmtanalífinu undanfarin ár, og segir Þorsteinn að mikil þörf hafi verið á afþreyingarstöðum sem þessum í Reykjanesbæ. „Þetta er spurning um að gera eitthvað saman og geta notið samverustunda og afþreyingar í heimabænum, en það getur verið snúið að koma sér aftur heim á Suðurnesin eftir að hafa kíkt út á lífið í Reykjavík.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK