Íslendingar eyddu samtals 2,6 milljörðum króna í erlendum netverslunum í maímánuði. Það er aukning um tæplega þriðjung á milli ára í maí eða 31,4 prósent.
Tæplega helmingur af innkaupunum voru gerð í erlendum fataverslunum á netinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar (RSV).
Íslendingar versluðu fyrir rúmlega tíu milljarða frá janúar til og með maí á þessu ári í erlendri netverslun en á síðasta ári á sama tímabili námu innkaup Íslendinga um 9,3 milljörðum og aukningin því töluverð.
Til samanburðar nam netverslun Íslendinga á vörum innanlands frá janúar til og með maí á þessu ári um 17,3 milljörðum króna. Á sama tímabili í fyrra nam innlend netverslun um 15,4 milljörðum. Á því aukningin við bæði í innlendum og erlendum netverslunum.
Magnús Sigurbjörnsson, forstöðumaður RSV, segir í samtali við Morgunblaðið að svo virðist sem að enginn samdráttur sé í neyslu Íslendinga. „Íslendingar láta engan bilbug á sér finna þrátt fyrir stöðuna í samfélaginu.“ Að mati Magnúsar bitnar aukning í erlendri netverslun ekki á innlendri verslun. „Ein leið til að útskýra þetta er að fólk er að reyna finna sér ódýrari föt og hluti á netinu. Kannski er veðrið bara búið að vera svo leiðinlegt að fólk er meira fyrir framan tölvuna. Svo virðist sem að netverslun innanlands minnki ekki samhliða.“