Gervigreindin að umbylta bílaiðnaði

Það styttist í að við getum varið tímanum í bílnum …
Það styttist í að við getum varið tímanum í bílnum í eitthvað annað en að halda bara um stýrið. AFP

Framtíð samgangna verður í brennidepli á ráðstefnunni The future of transportation sem Millilandaráðin standa að í tilefni af alþjóðadegi viðskiptalífsins, á Hilton Reykjavík Nordica næstkomandi þriðjudag. Á meðal fyrirlesara er Ralf Herrtwich, framkvæmdastjóri sjálfvirknihugbúnaðar hjá tæknirisanum NVIDIA.

Hann segist í samtali við Morgunblaðið, spurður um erindi sitt á fundinum, munu ræða um það hvernig hugbúnaður og gervigreind sé að umbreyta þróun ökutækja og hvernig það muni gera næstu kynslóðir bíla öruggari og sjálfbærari. 

- Þú komst til Íslands árið 2015 og hélst erindi á haustráðstefnu Advania og ræddir einnig við Morgunblaðið. Þú vannst fyrir bílaframleiðandann Mercedes-Benz á þeim tíma, en starfar nú fyrir NVIDIA. Hvert er hlutverk þitt hjá fyrirtækinu og hvernig sérðu gervigreindina þróast á næstu árum?

„Þegar ég ræddi síðast við Morgunblaðið hafði Mercedes-Benz klárað frumgerð af sjálfkeyrandi S-Class. Til að koma honum í framleiðslu þar sem gervigreind yrði nýtt, þurfti Benz aðgang að ofurtölvum og þar kom NVIDIA að málum. Ég gekk til liðs við NVIDIA árið 2019 og einu ári síðar tilkynntum við að fyrirtækin ætluðu að vinna saman að hönnun sjálfvirknikerfis fyrir Benz-bíla framtíðarinnar.

Gervigreindin er að umbylta bílaiðnaðinum. Hugbúnaður ökutækja er stöðugt og reglulega uppfærður, rétt eins og símar, sem bætir þau í sífellu.“

- Mun gervigreindin geta lagt hönd á plóg við þróun og smíði bíla og annarra ökutækja?

„Gervigreind er nú þegar notuð til aðstoðar og hjálpar t.d. verkfræðingum að vinna vinnuna sína. Hún getur t.a.m. yfirfarið hugbúnað bílsins. Þá getur hún skapað sjaldgæfar og hættulegar akstursaðstæður til að sjá hvernig hugbúnaðurinn bregst við. Þegar nýr bíll kemur úr framleiðslu getum við vitað með vissu að hann ráði við slíkar kringumstæður.“

- Frá 2015 hefur fólk orðið vant margvíslegum stoðtækjum í nýjum bílum, þar á meðal veglínuvara og tækni sem heldur ökutæki sjálfvirkt í fjarlægð frá öðrum. Hefur þróunin orðið hraðari eða hægari en þú hélst að hún yrði árið 2015?

„Þegar mikil spenningur er fyrir nýrri tækni eins og er raunin með sjálfkeyrandi bíla eru skammtímavæntingar gríðarlegar. En bílaiðnaðurinn er með langa hönnunarferla þar sem nýjungar krefjast ítarlegra öryggis og áreiðanleikaprófa.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 4. nóvember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK