Ef þú lendir í hálku þá þýðir ekkert að spóla

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Eyþór

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að það hefðu verið góð rök til þess að hækka stýrivexti í dag en óvissa um efnahagslegar afleiðingar jarðhræringanna á Reykjanesskaga hafi haft mikið að segja um þá ákvörðun að halda þeim óbreyttum.

Hann líkir óhóflegum launahækkunum í komandi kjarasamningum við það að reyna að spóla í hálku.

Ásgeir segir í samtali við mbl.is að peningastefnunefndin hafi í sjálfu sér ekki kosið um hvað hefði verið gert ef óvissan hefði ekki verið uppi en miðað við þá spá sem Seðlabankinn kynnti í dag hefðu verið góð rök til að hækka vexti.

Mögulega færri tásumyndir

„Óvissan er aðeins of mikil. Við vitum ekki um umfang þeirra aðgerða sem gripið verður til vegna Grindavíkur. Við höfum séð hvernig fréttaflutningur er erlendis af því sem er að gerast hér, þetta er í raun blásið upp.

Það gæti leitt til þess að við förum að sjá færri bókanir. Það gæti líka leitt til þess að Íslendingar fari síður út. Aukin óvissa hefur áhrif á það að heimilin geti orðið meira hikandi yfir því sem þau gera.“

Má kannski búast við færri tásumyndum?

„Já mögulega,“ segir Ásgeir og glottir út í annað.

Merki um að hægt hafi á

Hann segir merki um byrjað sé að hægja á.

„Raunvextir eru orðnir jákvæðir og töluvert háir og við höfum séð verðtryggðu kröfuna hækka töluvert. Það segir í niðurlagi þessarar yfirlýsingar að við bregðumst við því sem gerist. Spá er eitt og mældar stærðir eru annað. Á hverjum tíma þarf að taka ákvarðanir út frá þessu tvennu.“

Um var að ræða síðustu skipulögðu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans á árinu og að öllu óbreyttu verður næsta vaxtaákvörðun ekki kynnt fyrr en í febrúar. Ásgeir segist í því sambandi ekki hafa miklar áhyggjur af jólaversluninni sem framundan sé.

„Ég veit ekki hvernig jólavertíðin verður en ég held að það hafi kannski ekki mikið að segja.“

Ekki hægt að byggja upp kaupmátt nema undir verðstöðugleika

Hann segir hins vegar kjaraviðræður koma til með að skipta mjög miklu máli og að þær geti til dæmis haft töluverð áhrif á verðbólguvæntingar.

Hvað viltu segja við launþega sem myndu vilja fá eitthvað meira út úr kjarasamningum við þessa háu vexti og miklu verðhækkanir undanfarið?

„Það er bara þannig, eins og þú þekkir sjálfur, að ef þú ert á bíl og lendir í hálku, þá þýðir ekkert að spóla. Að sama skapi, ef þú ert kominn í verðbólgu þá er sama hvað þú heimtar miklar launahækkanir, þú færð ekki kaupmátt. Við erum bara í þeirri stöðu núna og það er þá bara spurning hvað fólk vill gera.“

Seðlabankastjóri segir ekki hægt að byggja upp kaupmátt nema undir verðstöðugleika.

„Það er eina leiðin til að hægt sé að semja um eitthvað sem í raun og veru heldur. Það er bara þannig. Þetta er ekki staða sem er einstök fyrir Ísland, svona er þetta bara.

Seðlabankinn hefur að einhverju leiti það hlutverk að tryggja kaupmátt launa, það er það verkefni sem við fáum eftir hvern kjarasamning. Að reyna að tryggja það að ávinningur hans sé ekki étinn upp. Það er ekki hlutverk sem er oft til vinsældar fallið.“

„Það eru bara ákveðnir hlutir sem við náum að gera“

Hann segir bankann fylgjast mjög vel með því sem gerist.

„Seðlabankinn er líka með fjármálastöðugleikaábyrgð og eins varðandi fjármálaeftirlitið. Við reynum að bregðast við og standa með þjóðinni í því sem er að gerast.

Við erum náttúrulega með háa vexti til að reyna að tryggja jafnvægi í efnahagslífinu. Það hefði ansi hrapalegar afleiðingar ef við myndum missa stjórn á hagkerfinu en það eru bara ákveðnir hlutir sem við náum að gera.

Við reynum að beita þeim stjórntækjum sem við höfum til að tryggja það að við förum í gegnum þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK