SÍA IV kaupir nýtt hlutafé í Örnu

Hálfdán Óskarsson framkvæmdastjóri Örnu verður áfram meðal stærstu hlut­hafa fé­lags­ins.
Hálfdán Óskarsson framkvæmdastjóri Örnu verður áfram meðal stærstu hlut­hafa fé­lags­ins.

Samkomulag hefur náðst á milli hluthafa mjólkurvinnslunnar Örnu á Bolungarvík og SÍA IV slhf., framtakssjóðs í rekstri Stefnis um kaup þess síðarnefnda á nýju hlutafé í Örnu.

Í fréttatilkynningu segir að hlutafjáraukningin komi til með að styðja við frekari vöxt félagsins og tryggja að félagið haldi áfram að vera brautryðjandi í vöruþróun og nýsköpun í framleiðslu á mjólkur- og hafravörum.

Hluthafar selja

Samhliða hlutafjáraukningunni hafa ákveðnir hluthafar ákveðið að selja sjóðnum hluti sína í félaginu, en Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Örnu, verður áfram meðal stærstu hluthafa félagsins samkvæmt tilkynningunni.

„Við hjá Örnu erum gríðarlega ánægð með að fá Stefni inn sem kjölfestufjárfesti í félaginu á þessum tímapunkti og væntum við mikils af samstarfinu. Þekking og reynsla Stefnis mun styrkja félagið og gera okkur einstaklega vel í stakk búin til að grípa þau fjölmörgu tækifæri sem eru á markaðnum og taka þannig næsta skref í vexti og uppbyggingu félagsins.
Frá upphafi höfum við lagt mikinn metnað í að framleiða hollar, bragðgóðar, ferskar og umhverfisvænar vörur. Við erum full tilhlökkunar fyrir komandi tímum og hlökkum til að kynna viðskiptavini okkar fyrir nýjum og spennandi vörum," segir Hálfdán í tilkynningunni.

Framúrskarandi mjólkurvörur

Eiríkur Ársælsson sjóðstjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni segir í tilkynningunni að Arna framleiði framúrskarandi mjólkurvörur í Bolungarvík og hafi byggt á þeim vörumerki sem vel flestir landsmenn þekkja. „Við erum því virkilega spennt fyrir því að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og vexti Örnu með starfsmönnum félagsins,“ segir Eiríkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK