Kom auga á gat á markaðnum

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Morgunblaðið/Karítas Guðjónsdóttir

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stofnaði fyrirtækið Moodup, sem mælir starfsánægju fyrir vinnustaði.

„Hugmyndin að Moodup kviknaði þegar ég var í ráðgjöf, en ég starfaði bæði fyrir fyrirtæki og opinbera aðila við stefnumótun og rekstrarumbætur. Í þeim verkefnum kom ég auga á gat á markaðnum þegar kom að starfsánægjumælingum á vinnustöðum. Eldri lausnir voru yfirleitt ítarlegar vinnustaðagreiningar sem voru tímafrekar bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur. Þær voru kostnaðarsamar og nýttust takmarkað,“ segir Björn.

Hann bætir við að það hafi komið sér vel að hafa numið verkfræði fyrir hagfræðina og komist þar í snertingu við forritun.

„Tæknileg forvitni varð til þess að ég forritaði þessa lausn og bauð vinnustöðum upp á að nota hana. Eitt leiddi síðan af öðru og þremur og hálfu ári síðar var Moodup orðið fullvaxta fyrirtæki með 100 vinnustaði sem viðskiptavini.“

Fyrirtæki þurfa að kortleggja vandamálin

Björn lét af störfum fyrir Moodup þegar hann hóf störf hjá Viðskiptaráði og tók í staðinn sæti í stjórn fyrirtækisins. Spurður hverjar hafi verið helstu áskoranirnar í ráðgjafarverkefnum fyrir fyrirtæki segir Björn að það hafi verið að greina og ná utan um vandamál í rekstrinum.

„Fyrsta viðfangsefnið er að ná vel utan um viðfangsefnið. Þegar maður nær að ramma vandamálið inn, greina staðreyndir málsins og kortleggja landslagið er eftirleikurinn oft auðveldur. Ef allar staðreyndir eru á hreinu er auðveldara að finna lausnir,“ segir hann. Björn segir að stjórnvöld gætu gripið til ýmissa aðgerða til þess að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Það megi gera með því að hafa samkeppnishæfni Íslands í forgrunni.

„Engin fátæk þjóð hefur mikla samkeppnishæfni,“ segir Björn og útskýrir að Viðskiptaráð sé samstarfsaðili IMD-viðskiptaháskólans í einni umfangsmestu samkeppnishæfniúttekt ríkja, sem mæli m.a. hversu vel gangi á Íslandi að búa til hagfellt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki.

„Ísland lækkaði um eitt sæti í úttektinni á milli ára og við erum þar öftust meðal jafningja,“ segir Björn og vísar þar til hinna norrænu ríkjanna og segir að við getum gert mun betur.

„Það sem blasir við er efnahagslegur óstöðugleiki. Við erum með sex prósenta verðbólgu ogríflegar launahækkanir og rekum ríkissjóð með halla. Óstöðugleiki dregur úr fjárfestingu og grefur undan langtímahugsun. Betri hagstjórn er því eitt brýnasta málið þegar kemur að rekstrarumhverfinu,“ segir Björn.

Tækifærin til að gera betur leynast víða

Björn segir að erfitt sé að benda á vandamálin á yfirflugi.

„Við höfum bent á tækifæri til að auka frjálsræði, bæði heilt yfir en líka sértækt. Við gerðum til dæmis úttekt á veðmálastarfsemi og lögðum þar til að banni við veðmálum á Íslandi yrði aflétt. Bannstefna stjórnvalda hefur ekki borið ávöxt og varð til þess að sífellt vaxandi hluti markaðarins fer fram utan landsteinanna. Tillögur okkar voru að gera markaðinn opnari og færa umgjörð starfseminnar í takt við nútímann. Þær myndu auka bæði atvinnu- og athafnafrelsi auk þess að tryggja jafnræði og hækka skatttekjur. Sambærileg tækifæri má finna í fjölmörgum málaflokkum,“ segir Björn.

Menntamálin skipti miklu máli

Viðskiptaráð hefur að undanförnu vakið athygli á stöðu menntamála á Íslandi, einkum í grunnskólakerfinu.

Björn situr í stjórn Háskólans í Reykjavík fyrir hönd Viðskiptaráðs, sem er stofnaðili og meirihlutaeigandi háskólans. Hann segir markmiðið með stofnun Háskólans í Reykjavík hafa verið að nýta menntakerfið til að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins.

„Við erum virkilega stolt af þeim árangri sem Háskólinn í Reykjavík hefur náð og hefur hann verið lyftistöng fyrir allt háskólastig á Íslandi bæði hvað varðar kennslu og rannsóknir. Háskólinn í Reykjavík er nú í fremstu röð á mörgum fræðasviðum,“ segir hann og bætir við að stjórnarstarfið sé nýhafið og hann sé að koma sér inn í starfið.

„Það starf sem ég hef fengið að kynnast þar hingað til er spennandi og ég hlakka til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu þessa mikilvæga háskóla,“ segir Björn.

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, er í ítarlegu viðtali í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK