Geti ekki byggt á heilsukvíða

Embætti landlæknis í Katrínartúni.
Embætti landlæknis í Katrínartúni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lára Herborg Ólafsdóttir, lögmaður og eigandi á LEX lögmannsstofu, gagnrýnir embætti landlæknis harðlega í pistli í ViðskiptaMogga síðustu viku.

„Einkennilegt verður að telja að landlæknir, sem hefur það lögbundna hlutverk að efla lýðheilsustarf, telji að einstaklingar eigi ekki að hafa frelsi til að afla sjálfir upplýsinga um eigið heilsufar, án aðkomu læknis og þá einhvers konar „klínískrar réttlætingar“, því fólk gæti hugsanlega fengið heilsukvíða,“ skrifar Lára.

Bendir hún á að eins hafi naskir menn bent á að sambærileg rök ættu að girða fyrir að einstaklingar fengju upplýsingar um stöðu lána sinna, enda kunni slíkt að valda fjárhagskvíða, ekki síst í því verðbólguástandi sem nú ríki.

Lára Herborg Ólafsdóttir lögmaður og eigandi á LEX lögmannsstofu
Lára Herborg Ólafsdóttir lögmaður og eigandi á LEX lögmannsstofu

Landlæknir gerður afturreka með ákvarðanir

Tilefni skrifanna er að á síðustu vikum hefur heilbrigðisráðuneytið fellt úr gildi tvær ákvarðanir embættis landlæknis, en landlæknir hafði í báðum tilvikum synjað nýsköpunarfyrirtækjum sem hugðust bjóða upp á nýjungar til einstaklinga.

"Annað fyrirtækið hugðist bjóða upp á blóðmælingar til einstaklinga sem vildu fylgjast sjálfir með líkamlegri heilsu sinni, m.a. í fyrirbyggjandi skyni. Landlæknir synjaði um leyfi með vísan til þess að starfsemin uppfyllti ekki skilyrði um faglegar lágmarkskröfur með vísan til þess að „ómarkviss blóðrannsóknarstarfsemi án klínískrar réttlætingar“ gæti leitt af sér „ýmsar óæskilegar afleiðingar og sóun“, þar með talið óþarfan heilsukvíða," skrifar Lára.

Hitt fyrirtækið hugðist að bjóða einstaklingum upp á skimanir með myndgreiningartækni.

Landlæknir synjaði fyrirtækinu m.a. á þeim grundvelli að einstaklingar „gætu upplifað falskt öryggi vegna hættu á falskt neikvæðri niðurstöðu“ og að einstaklingar með einkenni freistuðust jafnvel til að leita í „rangar rannsóknir“," skrifar hún.

Þurfi að sýna fram á að öryggi sjúklinga sé ógnað

Niðurstaða ráðuneytisins í báðum úrskurðum var á þá leið að svigrúm landlæknis til að setja kröfur að þessu leyti væri takmarkað.

„Slíkar kröfur yrðu ekki settar nema sýnt væri fram á að öryggi sjúklinga, og þar með lífi þeirra eða heilsu, stafaði bein ógn af starfseminni – synjun landlæknis yrði ekki byggð á vangaveltum um mögulegan heilsukvíða eða frekari rannsóknir í kjölfar blóðrannsóknar,“ skrifar hún.

Lára spyr sig hverra hagsmuna hið opinbera gæti eiginlega í málaflokknum, og vísar í þá umræðu sem skapast hefur undanfarin ár í kringum nýsköpun á heilbrigðismarkaði og aðgangshindranir af hálfu hins opinbera.

Hún segir viðkvæði landlæknis virðast vera að styggja ekki læknasamfélagið og koma í veg fyrir að einstaklingar fái aðgang að upplýsingum um eigið heilsufar án þeirra aðkomu.

Stórt efnahagsmál

Með vísan í mikið álag á heilsugæslustöðvar, öldrun þjóðarinnar og mikla aukningu lífsstílssjúkdóma og tilheyrandi kostnaðar segir Lára:

Verður að telja það stórt efnahagsmál að einstaklingar hafi frelsi til að fylgjast með og taka ábyrgð á eigin heilsufari, án aðkomu klínískra sérfræðinga til að „réttlæta“ slíkt sjálfseftirlit.“

Fróðlegt verði að sjá hvað komi upp úr næstu kössum nú þegar landlæknir tekur málin fyrir aftur. Verði ekki viðhorfsbreyting hjá hinu opinbera er Lára svartsýn á framhaldið. 

Við getum þó huggað okkur við það að þrátt fyrir að eiga heimsmet í tilvísunum kvíða- og þunglyndislyfja, þá sleppum við mögulega við heilsufarskvíðann. Þökk sé sérfræðingunum.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta lesið greinina í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK