Væntir skjótrar afgreiðslu SKE

Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku.
Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku. Eggert Jóhannesson

Þær fregnir bárust í gær að Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefði samþykkt Landsbankann sem hæfan eiganda á TM. Sala Kviku á tryggingafélaginu er því frágengin að öðru leyti en því að beðið er samþykkis Samkeppniseftirlitsins.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, væntir þess að samþykki liggi fyrir áður en árið er á enda.

„Ég tel ekki ástæðu til að ætla að þetta taki langan tíma. Að mínu mati lá nokkuð ljóst fyrir gagnvart Fjármálaeftirlitinu að Landsbankinn væri hæfur eigandi til þess að eiga tryggingafélag. Það hefði verið stórfrétt ef svo væri ekki. Hvað Samkeppniseftirlitið varðar eru þessi viðskipti að ég tel að flestra mati til þess fallin að auka samkeppni á tryggingamarkaði, sem og á bankamarkaði, þar sem við fáum eigið fé með sölunni til þess að styrkja starfsemi okkar.“

Þegar tilkynnt var um fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM fór af stað afar neikvæð umræða einkum í garð Landsbankans, litaði sú umræða Kviku að einhverju marki?

„Hún beindist nú einkum að öðrum og hafði því ekki mikil áhrif á okkur, þótt maður hafi vissulega fengið einhver létt skot frá vinum og kunningjum tengd því að Landsbankinn væri í eigu ríkisins. Ég held að fólk átti sig alveg á því að okkur ber skylda gagnvart hluthöfum okkar að taka hæsta boði.“

Munaði miklu á tilboði Landsbankans og annarra áhugasamra?

„Það er enginn vafi á því að Landsbankinn átti hagstæðasta tilboðið. Þau voru líka langáhugasömust og höfðu greinilega mjög sterka sýn hvað það varðar að geta þjónustað viðskiptavini sína á öllum sviðum, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Þau hafa líka farið í greiðslumiðlun, sem kom manni aðeins á óvart, en það virðist vera hluti af þessari strategíu,“ segir Ármann.

Næsti kostur hefði verið að skrá TM á markað.

„Það hefði að sjálfsögðu farið eftir markaðsaðstæðum sem hafa enn ekki verið sérstaklega góðar, en við venjulegar markaðsaðstæður hefðum við ekki verið langt frá því að fá svipað verð og við fengum frá Landsbankanum. Við skráningu hefði þó þurft að gefa ákveðinn afslátt og ferlið tekur lengri tíma, þannig að það er engin spurning að þetta var hagstæðasta leiðin fyrir okkur,“ segir hann.

Kaupin á TM og Lykli vel heppnuð

Höfðuð þið þá fengið alla samlegð út úr þeim samruna sem var að fá, sem fólst þá kannski helst í Lykli og lánasafni þess?

„Já. Ég hef einmitt oft fengið spurningar varðandi söluna á TM, um að við sameinuðumst TM og séum svo bara hætt við, hvort þetta hafi verið mistök. En samruninn hefur, frá upphafi til enda, verið frábær og skapað mikil verðmæti hjá Kviku og gjörbreytt félaginu,“ segir hann.

Í hverju felst virðið helst?

„Í fyrsta lagi var þetta þannig að þegar við erum að semja um samrunann við TM og Lykil, þá er sameiginlegt markaðsvirði þessara félaga um 27 milljarðar, en við erum núna að selja eingöngu TM fyrir um 30 milljarða og eigum eftir Lykil, þar sem við höfum náð mikilli samlegð í rekstrar- og fjármögnunarkostnaði auk þess sem félagið hefur vaxið mikið frá sameiningu. Þá höfum við á undanförnum árum greitt rúmlega 4 milljarða í arð til bankans frá TM og loks fylgdi Lykli um 20 milljarða skattalegt tap, sem hefur og mun nýtast bankanum. Þetta hefur verið frábær vegferð og ég hef fulla trú á því að salan núna á TM verði til hagsbóta fyrir alla aðila, Kviku, Landsbankann og TM, viðskiptavini félaganna, hluthafa og starfsfólk, og stuðla um leið að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði,“ segir Ármann.

Grein þessi er hluti af lengra viðtali við Ármann sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild sinni með því að smella hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK