Skoða skráningu á Norðurlöndum

Jón segir að fjárfestar erlendis horfi meira og meira á …
Jón segir að fjárfestar erlendis horfi meira og meira á hugbúnað Klappa. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir grænar lausnir skoðar tvíhliða skráningu í einu af hinum norrænu landanna en félagið er skráð á Nasdaq First North-hlutabréfamarkaðinn hér á Íslandi.

„Slík skráning myndi staðsetja okkur betur í Evrópu og hjálpa okkur að nálgast markaði utan Evrópu. Slík skráning er einnig hugsuð fyrir fjárfesta, þar sem hlutabréf Klappa væru á stærri markaði,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri félagsins.

Jón segir aðspurður að þar sem félagið sé skráð á Nasdaq First North hér á landi verði ekki mjög dýrt fyrir það að skrá sig samhliða í annarri Nasdaq-kauphöll, t.d. í Danmörku eða Svíþjóð. „Með því að skrá okkur t.d. í Danmörku fáum við dýpri markað. Það tengist líka dótturfélagi okkar þar í landi, Klöppum Nordic. Með tvíhliða skráningu reiknum við með að við munum ná betur til markaðarins og vonandi verður meiri hreyfing á bréfunum en verið hefur hér á landi.“

Byggja upp vörumerkið

Spurður að því hvort það útheimti ekki talsverða kynningarvinnu að fá meiri hreyfingu á bréfin játar Jón því. „Þetta verður tvenns konar. Við erum að byggja upp vörumerki okkar á Norðurlöndum en til þess þurfum við að nálgast bæði einstaklinga, fyrirtæki og fjárfesta. Í Danmörku eru t.d. bankar og fjárfestar sem fjármagna græn skuldabréf að gera auknar kröfur til fyrirtækja um að skila af sér traustum og áreiðanlegum sjálfbærniupplýsingum. Til þess að svara þessum kröfum fjárfesta og banka þurfa fyrirtæki að færa sig frá heimasmíðuðum tólum, hvort sem þau eru gerð í hugbúnaði eða í töflureiknum eins og Excel og fara í innleiðingu á Klapparkerfinu.

Við erum því að kynna okkur fyrir bönkum og fjárfestum, bæði að selja þeim Klapparkerfið til að halda utan um eigin sjálfbærnimál, styðja við sína eigin viðskiptavini í sjálfbærnivegferð þeirra og bjóða þeim að fjárfesta í Klöppum.“

Jón segir að fjárfestar erlendis horfi meira og meira á hugbúnað Klappa til að nota við sjálfbærniskráningu í eignasöfnum sínum.

Heildartekjur 297 milljónir

Klappir, sem skiluðu hálfs árs uppgjöri á dögunum högnuðust um tæpar 32 milljónir á tímabilinu samanborið við rúmar sex milljónir á sama tíma á síðasta ári.

Heildartekjur fyrirtækisins námu rúmum 297 milljónum króna og hagnaður fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam 58 milljónum, samanborið við tæpar 44 milljónir króna á sama tíma árið áður.

Hugbúnaðarlausnir Klappa gera fyrirtækjum kleift að uppfylla kröfur um upplýsingagjöf í sjálfbærni með einföldum og skilvirkum hætti. Eins og Jón útskýrir stuðlar búnaðurinn, með sjálfvirkri gagnasöfnun og greiningu, að skilvirkari vinnslu á upplýsingum um frammistöðu í sjálfbærni og gagnaskilum til hagaðila. Klappir dreifa hugbúnaðinum í gegnum net samstarfsaðila sem nær til um 25 landa.

„Fyrri hluti ársins var mjög sterkur hjá félaginu og við höfum styrkt stöðu okkar enn frekar á mörkuðum bæði heima og erlendis. Áskriftartekjur jukust um 21,8%. Þessi aukning er að hluta til vegna grunnáskrifta sem vænst er til að skili sér inn í auknum tekjum á komandi mánuðum,“ segir Jón Ágúst.

Hann segir vöxt félagsins erlendis skýrast að stórum hluta af því að fyrirtæki sem hingað til hafa gert kolefnisbókhald í eigin Excel-tólum séu að flytja sig yfir í stafræna tækni Klappa. „Fyrirtækin vilja mæta flóknu sjálfbærniregluverki með öflugri tækni sem dregur úr áhættu, eykur skilvirkni og lækkar kostnað,“ segir Jón Ágúst.

Meðal yfirstandandi verkefna fyrirtækisins er gerð gagnainnviða fyrir yfir tvö hundruð sjálfstæðar hitaveitur í Danmörku. „Annað verkefni, sem við erum einnig mjög stolt af, er að við erum að aðlaga upplýsingagjöf um úrgangsmeðhöndlun með sama hætti og við unnum með fyrirtækjum hér heima.“

Jón Ágúst segist reikna með að markaður fyrir hugbúnaðarlausn Klappa stækki umtalsvert á komandi árum því að verið sé að innleiða ný lög og reglugerðir varðandi upplýsingagjöf í sjálfbærni í fjölmörgum löndum. ,,Við höfum því lagt mikla áherslu á að undirbúa okkur fyrir hraðan vöxt á komandi árum. Við höfum m.a. verið að aðlaga áskriftarleiðirnar og sjálfvirknivæða ferla sem snúa að markaðssetningu, sölu, þjónustu, vöruþróun og dreifingu.“

Mögulegt bakslag

Spurður um möguleg áhrif nýafstaðins kjörs Donalds Trumps sem Bandaríkjaforseta, sem hefur ekki haft loftslagsmálin ofarlega á stefnuskrá sinni, segir Jón að mögulega geti orðið bakslag í Bandaríkjunum í þessum málum. „En víða í Evrópusambandinu er löggjöfin varðandi sjálfbærnimálin tilbúin og samþykkt og fyrirtækin eru að leita að lausnum eins og okkar til að hjálpa sér við utanumhaldið. Fyrirtækin sjá mikinn hag í að hafa þetta í kerfi okkar í staðinn fyrir að halda utan um tölurnar í Excel eða hugbúnaðartólum eins og víða er gert. Þar þarf ekki annað en að starfsmaður sem ber ábyrgð á Excel-skjalinu hætti eða forfallist til að skráningin fari í uppnám.“

Klappir grænar lausnir eru með 250 viðskiptavini sem greiða mánaðaráskrift. Næstum tvö þúsund fyrirtæki til viðbótar eru svo tengd vistkerfi Klappa, eins og Jón orðar það. Áskrifendur geta deilt gögnum úr lausninni en nauðsynlegt er að vera með áskrift til að geta unnið með gögnin í kerfinu.

„Með því að nota kerfið, hvort sem þú ert greiðandi viðskiptavinur eða ekki, tekurðu þátt í stækkandi samfélagi sem er að nota stafræna innviði Klappa til að fá samanburðarhæfar upplýsingar til að miðla til hagaðila.“

Jón segir reksturinn traustan um þessar mundir. „Við erum komin út úr þessum stóru nýsköpunarfjárfestingum og einblínum nú á markaðssetningu og sölu.“

Spurður hvort félagið hyggist afla sér aukins fjármagns með mögulegri tvöfaldri skráningu á markað segir Jón svo vera. „Við horfum til þess að auka hlutafé eða taka lán. Við erum komin á þann stað að geta gert það. Við höfum ekki ákveðið hvort af þessu tvennu við gerum, en við erum að hugsa um að ráðast í þetta á næstu 1-2 mánuðum,“ segir Jón.

Spurður um samkeppni á markaðinum segir Jón að Klappir hafi gríðarlegt forskot. „Þegar við byrjuðum árið 2015 var enginn farinn að hugsa um stafræna tækni til að halda utan um sjálfbærniupplýsingagjöf. Við höfum því mikið forskot á markaðinum.“

Gervigreind innleidd

Þrjátíu starfa hjá Klöppum. „Við höfum haldið okkur í þeim fjölda og erum á fullu að innleiða gervigreind, bæði í hugbúnaðinum og öllu okkar starfi, til að geta vaxið án þess að kostnaður aukist hlutfallslega. Við viljum reyna að halda okkur í 30 starfsmönnum að minnsta kosti næstu eitt til tvö ár,“ segir Jón að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka