Margrét Ágústa tók við í byrjun sumars sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands og segist sækja innblástur í að tala við félagsmenn og hitta bændur.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Áskoranirnar eru margar og verkefnin ærin fyrir bændastéttina. Þar er einna brýnast að bæta afkomu bænda, auka við nýliðun, gæta að tryggingarvernd og síðan að vernda landbúnaðinn með tollvernd.
Langflest vestræn ríki styðja við frumframleiðslu matvæla sem bændur sinna, t.d. með tollvernd, fjárfestingar- og nýliðunarstyrkjum svo eitthvað sé nefnt.
Tækifærin eru út um allt þar sem ýmis tæknivæðing í búrekstri er í gerjun og skilvirkur rekstur á hverju búi skilar betri afkomu og afurðum sem eru framleiddar á sjálfbæran hátt. Við vinnum að hagsæld bænda sem best við getum innan þess fjárhagslega svigrúms sem við höfum.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Mér finnst nauðsynlegt að kúpla mig út því annars brennur maður bara út. Þannig er það mikilvægt að leggja símann frá sér og safna orku með því að vera með fjölskyldu og vinum.
Ég er búin að vera í þessu starfi í fjóra mánuði og brenn fyrir þessa stétt og innblásturinn kemur með því að tala við félagsmenn og hitta fólk til að heyra hvað sé unnt að bæta.
Við erum í stöðugum samskiptum við aðra aðila, s.s. eftirlitsaðila og ráðuneytin og það er mjög gott hvað það eru góð samskipti okkar á milli en slíkt er lykilatriði fyrir alla viðkomandi.
Hver eru helstu verkefnin fram undan?
Í vinnunni eru verkefnin þau að stjórnvöld verða að huga að leiðum til að auka við nýliðun þar sem meðalaldur bænda fer bara hækkandi. Hver á þá að framleiða matinn, vera í skógræktinni, rækta hross eða loðdýr?
Það er líka nauðsynlegt að huga að tryggingarvernd bænda því að rekstrarskilyrði landbúnaðarins geta ekki staðið undir sér ef ekkert má út af bera þannig að bændur sjái bara þá einu leið að bregða búi.
Við sjáum bara hvaða áhrif kuldakastið hafði í byrjun sumars á Norðurlandi. Það hefur bein áhrif á afkomuna, í svo víðu samhengi.
Persónulega er ég að fara að selja íbúðina mína og það vex mér alveg svakalega í augum að fara að pakka öllu, selja og flytja. Langar helst að leggjast í dvala uns það klárast.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Það var um miðjan ágúst þar sem bændasamtök á Norðurlöndunum hittust hér í Reykjavík til að ræða stöðu landbúnaðarins og hvað við getum lært hvert af öðru. Það er mikilvægt að geta leitað ráða hjá öðrum samtökum innan Norðurlandanna og sömuleiðis fyrir okkur að geta miðlað áfram til þeirra.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Ég get verið kvíðapési, bæði í vinnu og einkalífi, en þá er ég dugleg að minna mig á vísu sem Guðmundur Kamban samdi og pabbi minn hefur farið með fyrir mig frá því að ég var barn. Vísan endar svona: „Gegn svo mörgu, sem guð þeim sendir, menn gera kvíðann að hlíf, og kvíða oft því, sem aldrei hendir, og enda í kvíða sitt líf.“
Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?
Ég held mér upplýstri með því að afla mér upplýsinga á Alþingi, vefsíðum stjórnvalda og samráðsgátt, skýrslum hérlendis og erlendis.
Ég er líka dugleg að lesa dóma, bara út frá lagalegu tilliti almennt og svo úrskurði og það hjálpar mér að halda þekkingu minni við. Síðan held ég við minni þekkingu í skattarétti með því að vera að kenna.
Hugsarðu vel um heilsuna?
Ég borða hollt en er afskaplega löt við að hreyfa mig. Á samt alltaf kort í ræktinni, skrái mig á námskeið sem ég fer síðan ekki á og þar fram eftir götunum. Ég ætla að vera svakalega dugleg þegar ég er búin að flytja og mun þá vera til algjörrar almennrar fyrirmyndar.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
Ég myndi búa í sveit, með lítinn búskap og draumur minn væri að reka lítið gistiheimili og veitingastað.
Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Ætli ég myndi ekki velja stjórnun og verkefnastýringu, eða eitthvað slíku tengt. Ég myndi líka auka þekkingu mína á fjármálum fyrirtækja og rekstrarskilyrðum.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Kostirnir liggja í nýsköpuninni þar sem við erum öflug þjóð og hugvitið mikið. Gallarnir liggja í íþyngjandi regluverki. Það þarf að huga að fjármagni fyrir bændur til að auka fjárfestingar og ná niður vöxtum. Það er allra hagur að vextirnir lækki.