c

Pistlar:

25. október 2021 kl. 9:06

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Stýrivextir, húsnæðislán og ISK

Fréttir tröllríða nú íslenskum fjölmiðlum um vænt áhrif stýrivaxtahækkana. Greiningardeildir bankanna eru nokkuð samhljóma varðandi spá um skarpa hækkun stýrivaxta næstu árin og er talan „4% plús“ orðin almenn. Í síðustu viku var fjallað um að litlu hefði mátt muna að stýrivextir hækkað 0,25% meira en raunin varð. Ég tel það vera ólíklegt að stýrivextir hækki svona mikið. Ein ástæða er að verðbólga næstu tólf mánaða er líklegast tímabundin. Framboðshlið vara á alþjóða vettvangi er að aðlaga sig gagnvart aukinni eftirspurn samhliða hjöðnun Covid áhrifa. Það eru, aftur á móti, önnur atriði innanlands sem ég einblíni á hér varðandi þessa skoðun mína.

Greiðslubyrði húsnæðislána og stýrivextir

Ljóst er að stýrivextir eiga eftir að hækka; sögulega séð eru þeir almennt í kringum verðbólgu hverju sinni en hafa síðan Covid skall á verið um 3% undir verðbólgu, sem sýnir lítil merki um að hjaðna undir óbreyttum kringumstæðum. Áhyggjur eru um að greiðslubyrði óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum hækki mikið því „leigukostnaður“ lánanna hækkar í ákveðnum takti við stýrivexti. Hafa margir lántakendur gripið til þess ráðs að umbreyta lánum sínum í fasta vexti. Það er þó ekki alveg augljóst hversu miklum árangri það skilar því álagið við að skipta yfir í fasta vexti er í kringum 1%. Auk þess eru slíkir vextir einungis fastir í þrjú eða fimm ár; eftir það fylgja þeir vaxtastigi þess tíma þegar „fasta“ tímabilinu lýkur.

Sé gert ráð fyrir að óverðtryggð lán hækki í svipuðum takti og stýrivextir, þá má ætla að vaxtakjör fólks með slík lán tvöfaldist á nokkrum árum, eða úr um það bil 3,5% uppí allt að 7%, gangi spár greiningadeilda eftir. Greiðslubyrði fólks sem er með lán til lengri tíma en 20 ár myndi samkvæmt þessu næstum því einnig tvöfaldast (afborganir á lengri lánum vigta hlutfallslega minna af greiðslubyrðinni). Þetta væri heldur erfið lexía fyrir flesta sem tóku slík lán.

Ég á, hins vegar, bágt með að trúa því að Seðlabankinn láti slíkt gerast án þess að leita allra leiða til að koma í veg fyrir það. Aðrar leiðir eru færar til að draga úr verðbólgu. Þó svo að óhjákvæmilegt sé að stýrivextir hækki meira en þeir eru nú þá tel ég að spár greiningadeilda varðandi stýrivaxtastig næstu ára vera full svartsýna.

Vert er að hafa í huga að stýrivextir einir sér hafa í raun sáralítil áhrif á efnahagslífið í heild. Hér má benda á að stýrivextir í dag miðast við hvað fjármálastofnanir fá fyrir að leggja pening í Seðlabankann, ekki lánakostnaður þeirra eins og var árin fyrir hrun.

Aðrar leiðir

Ein leið, sem ég hef áður bent á, er einfaldlega að hefja inngrip á gjaldeyrismarkaði og kaupa íslenskar krónur. Slíkt myndi styrkja íslensku krónuna, sem gerir það að verkum að erlendar verðhækkanir koma síður fram, ef nokkuð, í íslensku verðlagi. Óvíst er hversu mikið inngrip Seðlabankinn þurfi við þetta. Veltur það aðallega á ferðamannastraumnum. Ef væntingar um fjölda ferðamanna á næstu misserum ganga eftir er líklegt að gengi krónunnar styrkist í svipuðum dúr og gerðist árin 2015-2019.

Auk þess er líklegt að bankarnir hefjist handa við að greiða á ný arð til hluthafa sinna. Seðlabankinn skrúfaði fyrir slíkar greiðslur í upphafi Covid til að tryggja nægilega mikið peningamagn í umferð í þáverandi óvissu, en nú er engin ástæða fyrir slíku (búið er að rýmka reglurnar). Arion banki hefur notað umfram fjármagn sitt að hluta til við endurkaup eigin bréfa, en hækki gengi bréfa bankans enn frekar er líklegt að bankinn sjái minni ástæðu til að halda slíkum endurkaupum áfram. Miðað við þær björtu horfur sem nú ríkja í rekstri bankanna er líklegt að þeir nýti enn frekar svigrúm til að nota umfram fjármagn í arðgreiðslur frekar en að kynda undir verðhækkunum húsnæðis með fasteignalánum. Samkvæmt flestum rannsóknum varðandi hækkun húsnæðis þá er það þessi „vilji“ sem er helsta almenna ástæða fyrir hækkunum húsnæðis (framboðs og eftirspurnarsambandið er flóknara en almennt er kennt í hagfræði 101 áföngum).

Stýrivextir hækka, en ekki svona mikið

Seðlabankastjóri sagði nýlega í viðtali að Íslendingar hafi nú möguleika á því að búa við stöðugt lágvaxtaumhverfi. Mér þætti það undarlegt ef peningastefnunefndin myndi í framhaldi af slíkum yfirlýsingum hefja mikið og skarpt vaxtahækkanaferli. Líklegra er að Seðlabankinn grípi fyrst til ofangreindra úrræða.

MWM

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira