c

Pistlar:

30. október 2020 kl. 16:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ofurpeningur í ofurdeild


Peningar eru afl þeirra hluta sem gera þarf í heimi íþrótta. Heilbrigð sál í hraustum líkama fær ákveðna upphafningu þegar hægt er að koma henni í verð. Allt gengur kaupum og sölum og íþróttaheimurinn er rekin eins og afþreyingarfyrirtæki, nánast frá lægstu deildum Íslands til stærstu og elstu liða Evrópu. Bandaríkjamenn leiddu lengi vel þróunina í þessum peningaheimi og rekstur stóru deildanna þar vestra hefur verið ábatasamur og liðin þar hafa úr miklum fjármunum að spila. Í Evrópu hefur það lengi verið draumurinn að koma á líku fyrirkomulag þannig að meistaradeild Evrópu í hverri keppnisgrein verði hápunkturinn. Knattspyrnan hefur úr mestu að moða en bæði körfubolti og handbolti hafa einnig augastað á slíku fyrirkomulagi. Í körfuknattleiknum er kominn vísir að þessu sem gerir það meðal annars að verkum að landslið hafa ekki aðgang að sínum bestu leikmönnum ef leikdagur stangast á við Evrópudeildina.ofurbolt

Bandarískar fyrirmyndir

Það sem hefur reynst Bandaríkjamönnum best er fyrirsjáanleiki sem byggist á því að í efstu deildunum er allt óbreytt, enginn þarf að þola fall á milli deilda með tilheyrandi tekjumissi. Vissulega er hægt að kaupa lið og flytja milli borga og ríkja en það er áfram í NBA, NFL, NHL eða MLB eða hvað það er sem deildirnar heita. Þetta hefur reynst ábatasamt fyrirkomulag eins og áður segir og stutt við uppbyggingu verðmætra vörumerkja eða sérleyfa (e. franchising). Nokkrir eigendur þessara íþróttaliðamerkja í Bandaríkjunum hafa reynt fyrir sér í Englandi með góðum árangri. Þannig er Glazer fjölskyldan stærsti eigandi enska knattspyrnuliðsins Manchester United og John W. Henry er stærsti eigandi Liverpool. Henry á einnig Boston Red Sox hafnarboltaliðið.

En stærstu lið Evrópu geta ekki gengið að því vísu að komast í stærstu deildina og telja það óásættanlegt og benda á að það séu þau sem útvegi mestu tekjurnar. Því hafa lið eins og Manchester United, Barcelona, Juventus, Real Madrid, Arsenal, AC Milan og Bayern Munchen leynt og ljóst unnið að því undanfarin ár að stofna ofurdeild sem skili þeim ofurpeningi! Nokkurt uppnám varð í fyrra þegar þýska tímaritið Der Spiegel greindi frá áformunum enda hefur mikil leynd hvílt yfir undirbúningnum.

Hverjir verða með?

Hver mörg lið yrðu í slíkri deild er ekki ljóst og við blasir að mörg lið telja sig eiga erindi í þennan hóp. Mætti sjálfsagt nefna til lið eins og Manchester City, Liverpool og Chelsea. Öll þessi lið eru í Englandi og óvíst er hvort að Englendingar fái 5 lið inn í 18 liða ofurdeild. En þó ekki útilokað enda fjárhagsleg geta ensku liðanna mikil og ekki síður aðdráttarafl þeirra meðal sjónvarpsáhorfenda. En til að tryggja stöðu deildarinnar og halda við áhuga einsakra landa gætu sumir hugsað sér að þarna yrðu að vera fleiri lið frá stærri deildarkeppnum, svo sem Hollandi, Belgíu, Rússlandi, og Portúgal en óvíst er að jafnvel bestu lið þeirra uppfylli kröfur hinnar nýju deildar. Líklega væru það lið frá Englandi, Spáni, Ítalíu, Þýskalandi og Frakklandi sem ættu forgang inn í svona keppni.

Sem gefur að skilja hafa knattspyrnuyfirvöld einstakra landa og Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, áhyggjur af þessu. Peningaflæðið sem hefur verið undanfarin misseri og byggist á tilfærslu frá ríkari liðum til þeirra fátæku er sú lind sem heldur við grunnstarfi knattspyrnunnar segja margir. Með því að stöðva þetta rennsli (við getum kallað þetta brauðmolakenningu knattspyrnunnar (e. trickle-down economics) til að gleðja fólk) er hætt við að það dragi verulega úr getu annarra liða til að lifa af. Í Bandaríkjunum er háskólaboltinn vissulega til staðar og dregur að sér peninga og athygli en erfitt er að sjá að hægt sé að spegla þannig starfsemi yfir til Evrópu. Þá hafa menn áhyggjur af því að þessi lið íhugi jafnvel að aðskilja sig alveg frá deildarkeppnum sinna landa og leggi aðaláherslu á hina nýju ofurdeild. Sendi jafnvel B-liðin í deildakeppni og vegna fjárhagsstyrks liðanna verði þau bara nokkuð góð. En geta aðrir en þessi þröngi hópur sætt sig við svona fyrirkomulag? Það ætti að skýrast á næstu mánuðum.