Viðskiptaráð birti í vikunni úttekt um sérréttindi opinberra starfsmanna. Samkvæmt greiningu þeirra njóta opinberir starfsmenn sérréttinda sem jafngilda um 19% kauphækkun miðað við einkageirann. Styttri vinnuvika vegur þar þyngst og jafngildir 11,1% kauphækkun opinberra starfsmanna að mati Viðskiptaráðs.
Úttektin vakti hörð viðbrögð hjá stéttarfélagi opinberra starfsmanna og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, sagði samanburð Viðskiptaráðs á starfsréttindum hjá hinu opinbera og í einkageiranum væri ómarktækan. Kolbrún vísar aftur á móti í gögn kjaratölfræðinefndar sem bendi til þess að starfsfólk hjá hinu opinbera vinni að jafnaði fleiri vinnustundir en fólk á almennum vinnumarkaði. Inni á heimasíðu BSRB segir að stytting vinnuvikunnar á Íslandi og reynslan af innleiðingu hennar hafi vakið heimsathygli. Þar er fullyrt að fjöldi landa hafi verið að prófa sig áfram með styttri vinnuviku og vísa til Íslands til fyrirmyndar. Þar eru nefnd Bretland, Holland, Belgía, Írland, Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland.
En bæði tölur Viðskiptaráðs og þær sem Kolbrún kynnir eru forvitnilegar fyrir íslenskan vinnumarkað og sýna hve mikið ber orðið á milli hins opinbera og einkamarkaðsins.
Konur eru 73% þeirra sem starfa hjá hinu opinbera
Þannig kom það fram hjá formanni BHM að þau störf hjá hinu opinbera sem um ræðir séu að stórum hluta unnin af fjölmennum kvennastéttum. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar séu 73% þeirra sem starfa í opinbera geiranum konur. Af þeim sem starfa í einkageiranum séu hins vegar 65% karlar en 35% konur. Þetta eru auðvitað merkileg hlutföll og í raun sérstakt að þau séu ekki rædd meira. Jafnréttisumræðan gengur oftar en ekki út á að jafna störfum og hlutverkum milli kynjanna en þarna virðist öllum sama þó að nánast ¾ þeirra sem vinna hjá hinu opinbera séu konur. Það er kynjahalli sem munar um og sjálfsagt má hafa margar skýringar á því hvað veldur.
Oft er rætt um að það þurfi að jafna hlut kynjanna þegar rætt er um einkafyrirtæki og sérstaklega beinist þessi umræða að stjórnendum skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni. En það má ætla að það sé svo að konur séu í miklum meirihluta stjórnenda hjá hinu opinbera án þess að neinn hafi sýnt því sérstakan áhuga að skoða það, hvað þá að berjast fyrir breytingum þar.
Vinnuvikan lengri hjá körlum og einkaframtakinu
Í úttekt Viðskiptaráðs kemur fram að vinnuvikan sé að meðaltali 3,4 klukkustundum styttri hjá opinberum starfsmönnum samanborið við starfsfólk í einkageiranum. Meðalfjöldi vikulegra vinnustunda sé 32,3 klukkustundir hjá hinu opinbera en 35,7 klukkustundir í einkageiranum. Kolbrún segir að Viðskiptaráð velji að láta þess hvergi getið að umrætt meðaltal tekur til allra starfa, líka þeirra sem gegna hlutastörfum. Þannig bendir Kolbrún á að karlar vinni að jafnaði fleiri vinnustundir á viku, eða 38 klukkustundir samanborið við 31 klukkustund hjá konum, samkvæmt vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar 2024. Vinnuvika karla er því um 20% lengri en hjá konum. Þar að auki vinni karlar frekar yfirvinnu, sem hækkar heildarfjölda vinnustunda í einkageiranum enn frekar.
Kolbrún telur að þar sem hlutastörf og vaktavinnustörf eru mun algengari hjá hinu opinbera en í einkageiranum þá sé þessi samanburður Viðskiptaráðs ómarktækur. Hún bendir á að í skýrslu kjaratölfræðinefndar vorið 2024 sé þessi mismunur rakinn til umfangs hlutastarfa. Þá segir hún að samkvæmt gögnum kjaratölfræðinefndar fái fullvinnandi hjá hinu opinbera greiddar 177 klukkustundir að meðaltali á mánuði en á almenna markaðnum séu þær að meðaltali 175,1.
Náði stytting vinnuviku bara til opinberra starfa?
Það er rétt að ýmis þjónusta, svo sem í heilbrigðiskerfinu og við löggæslu, kallar á vaktavinnu. Þegar vinnuvikan var stytt var talið að þyrfti að ráða að minnsta kosti 80 lögregluþjóna til viðbótar á landsvísu til að vega á móti styttingunni. Sama átti við um ýmsar aðrar stéttir opinberra starfa. Það var reyndar svo að ákveðið var að ráðast í styttingu vinnuviku eftir fremur litla umræðu. Það ætti að vera tilefni til að gera sérstaka úttekt á því hvernig framkvæmd hennar hefur reynst. Meðal raka fyrir styttingu vinnuvikunnar voru þau að það myndi leiða til aukinnar framleiðni vinnuafls.