Betra að kveðja degi of snemma en degi of seint

Nýverið kvaddi Karen Einarsdóttir hundinn Bellu eftir fjórtán dýrmæt ár …
Nýverið kvaddi Karen Einarsdóttir hundinn Bellu eftir fjórtán dýrmæt ár saman. Samsett mynd

Nýverið kvaddi Karen Einarsdóttir hundinn sinn Bellu eftir að hafa fylgt henni í fjórtán dásamleg ár. Karen hafði lengi kviðið kveðjustundinni, en þegar hún vissi að Bella ætti stutt eftir ákvað hún að búa til svokallaðan laupalista (e. bucket list) sem innihélt ýmislegt skemmtilegt og gómsætt sem Bella fékk að upplifa. 

Karen segir laupalistann hafa gjörbreytt síðustu vikunum sem þær áttu saman þar sem fókusinn hafi farið úr sorginni og kvíðanum fyrir kveðjustundinni yfir í að fagna Bellu og allra dýrmætu stundanna sem þær áttu saman. 

Karen er 28 ára gömul og hefur alla tíð verið …
Karen er 28 ára gömul og hefur alla tíð verið mikil hundamanneskja.

„Bella var einn sá besti hundur sem ég hef kynnst, þó ég segi sjálf frá. Hún var ótrúlega traust, auðveld í þjálfun og fljót að læra nýja hluti. Í gegnum árin prufuðum við allskonar hundaíþróttir en sú sem stóð uppúr hjá henni var hundafimi. Henni þótti hún svo skemmtileg að ég keypti hundafimibraut sem ég setti af og til upp í garðinum. Hún tók alltaf rólega á móti gestum, gelti aldrei heldur másaði framan í mann ef henni vantaði eitthvað eða var ósátt,“ segir Karen. 

„Ég hef oft djókað með það að sumir borði til að lifa en Bella lifði 100% til að borða! Eini ósiðurinn hennar var að betla mat við matarborðið og það var ógerlegt að venja hana af því. Hún var heilsuhraust alveg fram að 13. ári, en þá greindist hún með gigt og einhverjum tíma seinna greindist hún með elliglöp eða „hunda alzheimer“. Við kvöddum hana tæpum mánuði eftir 14 ára afmælið hennar,“ bætir hún við. 

Bella alsæl á fjórtán ára afmælisdaginn, en hún fékk að …
Bella alsæl á fjórtán ára afmælisdaginn, en hún fékk að sjálfsögðu afmælisköku og kerti í tilefni dagsins.

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Ég var 14 ára og eftir töluvert suð tókst mér að sannfæra mömmu um að okkur bráðvantaði hund. Við skoðuðum hreinræktaðan Labrador en ég sagði við mömmu að við skyldum kíkja einu sinni enn inná bland.is og sjá hvort þar væri ekki hvolpur sem þyrfti heimili. Við sáum auglýsingu sem var þá nýkomin inn frá sveitabæ sem var með 12 vikna hvolp sem yrði lógað ef hann yrði ekki sóttur strax. Við drifum okkur út í bíl og keyrðum samstundis og sóttum hana.“

Karen og Bella eiga margar dýrmætar minningar saman, meðal annars …
Karen og Bella eiga margar dýrmætar minningar saman, meðal annars úr hundafimi.

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?

„Ég fékk þann heiður að fara í gegnum öll helstu tímamót í mínu lífi fram að þessu með Bellu mér við hlið. Hún var með mér þegar ég fékk fyrsta kossinn, fyrsta kærastann, fyrstu ástarsorgina, útskrifaðist úr grunnskóla, fékk bílprófið, þegar við fluttum saman að heiman, útskrifaðist úr menntaskóla, fyrsta vinnan, fyrstu íbúðarkaupin og nú nýlega þegar ég gifti mig.

Ein skemmtileg minning sem ég hugsa oft um er þegar ég var nýkomin með bílpróf og ákvað að fara með hana í ævintýraferð í útilegu. Verandi ung og vitlaus fattaði ég ekki hversu kalt yrði um nóttina svo elsku Bella kom mér til bjargar með því að skríða ofaní svefnpokann með mér og sofa þar.“

Bella var traust og fór með Kareni í gegnum mörg …
Bella var traust og fór með Kareni í gegnum mörg stór tímamót í lífi hennar.

Var Bella með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Hún var svo gráðug í mat að það stóð stundum í henni svo við þurftum að kaupa sérstakan dall með litlum hólfum sem fóðrið dreifðist í svo hún gæti ekki gleypt heilu munnfyllin lengur. Henni lá svo á að borða allt sem henni var rétt að oftar en ekki nartaði hún í puttana í leiðinni. Það nefnilega gekk ekki heldur að kenna henni að taka nammið fallega.

Fyrir stuttu síðan gáfum við henni hundamat í sílikon möffinsformi, en gömlu konunni nægði ekki að taka matinn heldur át formið með í heilu lagi – það var dýrt spaug sem endaði á dýraspítalanum. Dýralæknarnir kölluðu hana eftir það „Fröken Möffins“.

Það var fátt sem gladdi Bellu jafn mikið og gómsætur …
Það var fátt sem gladdi Bellu jafn mikið og gómsætur matur.

Hvað getur þú sagt mér um laupalistann sem þið bjugguð til?

„Þegar hún fór í heilsufarsskoðun 13 ára þá var mig farið að kvíða kveðjustundinni. Ég spurði dýralækninn hvort ég gæti ekki örugglega átt von á að hafa hana lengur hjá mér sem hún jánkaði, en hún sagði mér frá því að hún hafi sjálf gert „bucket“ lista fyrir sinn hund þegar hann varð gamall.

Ég tók það til mín og settist niður með manninum mínum og bjó til minnisblað í símanum þar sem við settum inn hugmyndir. Suma hluti kláruðum við þegar tækifæri gafst næsta árið, en þegar hún var orðin 14 ára og ég sá fram á að tíminn okkar saman yrði ekki mikið lengri þá gaf ég í og setti mér markmið að klára listann!

Listinn var samansettur af því sem henni þótti skemmtilegast að gera og mat sem ég mundi eftir að hún betlaði hvað mest þegar hann var á matarborðinu.“

Á listanum var meðal annars ísbíltúr þar sem Bella fékk …
Á listanum var meðal annars ísbíltúr þar sem Bella fékk sinn eigin ís í fyrsta sinn.

Hvernig voru síðustu tvær vikurnar ykkar saman?

„Tveimur vikum áður en við kvöddum Bellu hittum við yndislegu dýralæknana okkar á Stuðlum á Selfossi. Bella var fastagestur þar síðasta árið þar sem hún fékk sprautur við gigtinni sinni. Ég hafði beðið þær að gefa mér aðvörun þegar þeim fannst tíminn okkar vera farinn að styttast.

Ég hafði heyrt það hollráð að betra væri að kveðja degi of snemma en degi of seint og vildi fylgja því. Ég vildi alls ekki að síðustu dagarnir hennar yrðu fullir af þjáningu og vildi leyfa henni að fara með reisn á meðan hún var enn glöð og hún sjálf. Við völdum dagsetningu fyrir kveðjustund og ákváðum að klára atriði á listanum daglega þar til hann yrði kláraður.“

Karen vildi alls ekki að síðustu dagar Bellu yrðu fullir …
Karen vildi alls ekki að síðustu dagar Bellu yrðu fullir af þjáningu.

„Við héldum kveðjupartí þar sem margt af hennar uppáhaldsfólki kom, fékk að kveðja og borða vöfflur með henni. Við leyfðum henni að leika við uppáhaldskrakkana sína, fórum að synda, lékum með garðslönguna í síðasta sinn, fórum upp í bústað, sóluðum okkur á pallinum og borðuðum auðvitað allskonar gúmmelaði.“

Fjölskyldan hélt kveðjupartí þar sem var mikið stuð.
Fjölskyldan hélt kveðjupartí þar sem var mikið stuð.

Var eitthvað á laupalistanum sem stóð upp úr hjá Bellu?

„Já, það var klárlega öll skiptin þar sem hún fékk að borða nýjan mat. Hún elskaði t.d. að fá eina og eina Doritos flögu í gegnum tíðina svo við héldum Doritos-kvöld þar sem hún fékk að smakka fleiri týpur og eðlu með. Við fórum líka með hana í ísbíltúr þar sem hún fékk sinn eigin ís í brauði, en henni þótti það alls ekki leiðinlegt!“

Eins og sést var Bella í skýjunum með Doritos-kvöldið svokallaða.
Eins og sést var Bella í skýjunum með Doritos-kvöldið svokallaða.

„Ég held samt að það sem hafi staðið mest upp úr hjá henni hafi verið heimabakaða súkkulaðikakan sem hún fékk daginn sem hún dó. Eins og flestir vita er súkkulaði eitrað hundum, en ég vildi að hún fengi að smakka það áður en hún færi. Hún át sneiðina í tveimur bitum og í kjölfarið fór hún í fyrsta og eina sinn upp á borð til þess að reyna að ná sér í aðra sneið.“

Súkkulaðikakan sló sannarlega í gegn, en hún fékk kökuna daginn …
Súkkulaðikakan sló sannarlega í gegn, en hún fékk kökuna daginn sem hún kvaddi.

Ertu með einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda sem eru með gamla eða veika hunda sem eiga stutt eftir?

„Elsku dýrin okkar gefa okkur svo mikið og eru alltaf til staðar fyrir okkur, tilbúin að hlusta og veita skilyrðislausa ást. Það er okkar hlutverk að vera til staðar fyrir þau á síðustu stundunum en á sama tíma að reyna að leyfa þeim að kveðja með reisn á meðan þau hafa enn einhver lífsgæði.“

Karen deilir einlægum ráðum með fólki sem er í sömu …
Karen deilir einlægum ráðum með fólki sem er í sömu sporum.

„Mitt ráð til þeirra er að reyna eftir bestu getu að njóta tímans sem þið eigið eftir saman. Ég kveið þessum tíma svo lengi, en með því að nota „bucket“ listann náði ég að breyta tóninum á þessum tíma. Aðal fókusinn var ekki lengur á að kvíða fyrir og syrgja heldur að fagna henni og allra stundanna sem við áttum saman og búa til nýjar minningar.“

Bella og Karen nutu sín í botn í ísbíltúrnum sem …
Bella og Karen nutu sín í botn í ísbíltúrnum sem var á laupalistanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert