Myndi leyfa kjarnavopn í Svíþjóð á stríðstímum

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson segist vera opinn fyrir að hýsa kjarnavopn í Svíþjóð á stríðstímum, en gagnrýnendur hafa kallað eftir því að bannað verði að hýsa þau í landinu.  

Sænska þingið mun í júní greiða atkvæði um varnarsamkomulag við Bandaríkin sem myndi gefa Bandaríkjunum aðgengi að herstöðvum í Svíþjóð. Gæfi það bandaríska hernum leyfi til að hýsa þar herbúnað og vopn.

Sagan önnur á stríðstímum

Kallað hefur verið eftir því, m.a. frá friðarsamtökunum Senska Freds, að sænska þingið setji í samninginn ákvæði um að Svíþjóð leyfi ekki hirslu kjarnavopna á sænskri grundu. Sænska þingið hefur þó ítrekað að það sé ekki nauðsynlegt vegna víðtækrar samstöðu um kjarnavopn sem og þeirrar ákvörðunar þingsins um að kjarnavopn séu bönnuð á friðartímum.

Í viðtali við sænska ríkisútvarpið segir forsætisráðherrann að á stríðstímum sé þó sagan önnur.

Ákvörðunin einungis tekin af Svíþjóð

„Á stríðstímum er þetta allt annað mál, þetta myndi velta algjörlega á því sem myndi gerast,“ segir Kristersson og heldur áfram:

„Í versta tilfelli þurfa lýðræðisríki í okkar hluta heimsins að geta varið sig gegn löndum sem gætu hótað okkur með kjarnavopnum.“

Segir forsætisráðherrann að ákvörðunin yrði einungis tekin af Svíþjóð en ekki af Bandaríkjunum og undirstrikaði hann að innganga Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið (NATO) sé til að tryggja að sú staða komi ekki upp.

Hélt hann því þá fram að Úkraína hefði ekki orðið fyrir árásum Rússlands ef landið hefði átt aðild að bandalaginu.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert