Réttarhöld hafin á ný í hrottalegu morðmáli

Thomsen áfrýjaði málinu til landsréttar en hann var dæmdur fyrir …
Thomsen áfrýjaði málinu til landsréttar en hann var dæmdur fyrir hrottalegt morð á Miu Skadhauge-Stevn. Mynd/Facebook

Réttarhöld vegna morðsins á hinni 22 ára gömlu Mia Skadhauge Stevn hófust á ný í Álaborg í dag. Thomas Thomasson, áfrýjaði málinu í fyrra eftir að hann var dæmdur fyrir manndráp, tilraun til nauðgunar og ósæmilega meðferð á líki Miu.

Hinn 38 ára gamli Thomsen var dæmdur fyrir héraðsdómi í fyrra og áfrýjaði málinu samstundis. Var hann úrskurðaður í ótímabundið gæsluvarðhald eftir að réttargeðlæknir mælti með því fremur en hefðbundinni fangelsisvist þar sem hann taldi Thomsen afar hættulegan öðrum. 

Ekki var hægt að sanna að Thomsen hefði nauðgað stúlkunni vegna þess að hann hafði bútað lík hennar í 231 bita. Taldi dómstóllinn þó hægt að sanna að það hefði verið ætlun hans og því hægt að dæma hann fyrir tilraun til nauðgunar.

Leggja fram gögn og yfirheyra Thomsen á ný

Samkvæmt danska miðlinum TV2 voru gögn frá héraðsdómi lögð fyrir landsrétt í dag og er búist við frekari gögnum á morgun. Er einnig búist við að hinn ákærði verði yfirheyrður á ný. 

Voru meðal annars myndbönd úr öryggismyndavélum sýnd fyrir dómstólum í dag en þó ekki þannig að blaðamenn gætu séð á skjáinn.

Voðaverk­in áttu sér stað árla morg­uns þann 6. fe­brú­ar 2022, eft­ir að Mia steig inn í bif­reið Thomsen í Ála­borg. Hafði hún verið úti á líf­inu til lok­unn­ar á Jomfru Ane-götunni og misst af stræt­is­vagni en Thomsen ók með hana út í skóg­lendi þar sem hann er sagður hafa kyrkt hana.

Mia Skadhauge Stevn var 22 ára hjúkrunarfræðinemi í Álaborg.
Mia Skadhauge Stevn var 22 ára hjúkrunarfræðinemi í Álaborg. Mynd/Nordjyllands Politi

Setti líkamsleifarnar í holur og fyllti með leysiefni

Thomsen hefur ítrekað neitað sök og segir Miu hafa stundað kynmök með sér af fúsum og frjálsum vilja. Hún hafi aftur á móti hrasað í skóginum og ólin á tösku hennar vafist um háls hennar og óvart kyrkt hana þegar hann reyndi að hjálpa henni á fætur með því að toga hana upp á töskuólinni.

Hann hafi þá orðið skelkaður og ekki þorað að hringja á neyðarlín­una og hafi því flutt lík henn­ar heim til sín. Þar hafi hann eytt næstu dögum í að búta líkið og síðar dreift líkamsleifunum um nærliggjandi skóglendi. Á hann að hafa sett líkamsleifarnar í holur og fyllt þær með leysiefni.

Töldu réttarmeinafræðingur og tæknimenn útskýringar Thomsen um töskuólina svo ólíklegar að hægt væri að útiloka þær og féllst héraðsdómur á það.

Fundust einnig föt, lyklar og hárteygja frá Miu í skóginum og taldi lögregla það merki um að hún hefði reynt að komast undan Thomsen er hann braut á henni í skóginum. Hann hafi á endanum náð henni og kyrkt hana.

Í upptökum úr eftirlitsmyndavélum má sjá Miu umrætt kvöld í …
Í upptökum úr eftirlitsmyndavélum má sjá Miu umrætt kvöld í febrúar. Thomsen bauð henni far eftir að hún missti af strætisvagni. Mynd/Nordjyllands Polit

Vísuðu frá nýjum vitnum

Landsréttur vísaði frá þremur nýjum vitnum sem saksóknari hugðist kalla fyrir dóminn. Talið er að vitnin þrjú tengist 14 ára gömlu kynferðisbroti gegn sofandi konu. Við lífsýnatöku í máli Miu kom í ljós að það passaði við lífsýni úr máli konunnar. 

Átti það brot sér einnig stað í Álaborg í íbúð nálægt Jomfru Ane-götu árið 2010, er það sama gatan og Mia hafði verið að skemmta sér á kvöldið sem hún lést árið 2022. Flúði árásarmaðurinn úr íbúðinni árið 2010 en ekki tókst að upplýsa málið. 

Ekki er þó hægt að ákæra Thomsen fyrir eldra brotið þrátt fyrir að lífsýnið þar sem málið er núna orðið fyrnt. Hafði saksóknari í málinu þó ætlað sér að kalla brotaþola, meðleigjanda hennar og kærasta meðleigjandans úr málinu inn sem vitni í morðmáli Miu fyrir landsrétti.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert