Handtaka gæti leitt til brottreksturs

Neðri deild breska þingsins.
Neðri deild breska þingsins. AFP/Jessica Taylor

Þingmönnum breska þingsins gæti verið meinaður aðgangur að þinginu og þeim vikið úr embætti verði þeir handteknir vegna gruns um kynferðis- eða ofbeldisbrot. Þetta samþykkti breska þingið naumlega sem lög í gær. 

Samþykkt frumvarp gengur enn lengra en fram kom í upphaflegri tillögu breska Íhaldsflokksins, sem lagði frumvarpið fram.

Tillaga flokksins kvað á um að þingmenn yrðu látnir víkja úr embætti og meinaður aðgangur að þinginu, ef lögð væri ákæra á hendur þeim vegna gruns um kynferðis- eða ofbeldisbrot.  

Frá árinu 2019, þegar þingkosningar fóru síðast fram í Bretlandi, hafa nokkrir þingmenn verið handteknir vegna gruns um fyrrgreind brot.

Áður fyrr sömdu þingmenn við sinn flokk hvort þeir gætu haldið áfram þingstörfum eftir að hafa verið handteknir fyrir slíkan verknað. En með breyttum lögum mun óháð nefnd úrskurða um slík mál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka