Holland sektar Fortnite og krefst breytinga

Í yfirlýsingu Epic Games segir að breytingarnar muni leiða til …
Í yfirlýsingu Epic Games segir að breytingarnar muni leiða til „lélegrar upplifunar fyrir leikmenn“. Grafík/Epic Games

Yfirvöld í Hollandi hafa sektað framleiðendur tölvuleiksins Fortnite, Epic Games, um 1,1 milljón evra, eða rúmar 150 milljónir íslenskra króna. Sektin byggir á því að tölvuleikurinn útsetji viðkvæm börn fyrir kaupum á vörum í verslun leiksins. 

Framleiðandinn fékk í raun tvær sektir fá neytenda- og markaðsyfirvöldum í Hollandi (AMC) eftir að upp komst að leikurinn, sem markaðssettur er fyrir börn undir lögaldri, beiti notendur á margan hátt þrýstingi um kaup á vörum í verslun leiksins. 

Epic Games hefur mótmælt ákvörðuninni og lagt til nokkrar breytingar á leiknum sem ACM segir að myndu létta áhyggjur þeirra. Í yfirlýsingu frá tölvuleikjaframleiðandanum segir þó að ákvörðunin byggi að verulegu leyti á staðreyndarvillum um það hvernig Fortnite og Item Shop, eða verslun leiksins, virka. 

„Villandi“ og „blekkjandi“ niðurtalning 

Eins og fram kemur hér á undan er um að ræða tvær sektir. Önnur varðaði skilaboð í leiknum á borð við „eignastu það núna“ eða „kauptu það núna“ en auglýsingar sem hvetja börn til kaupa eru „í öllum tilfellum ólöglegir og árásargjarnir viðskiptahættir,“ segir ACM. 

Hin sektin tengist „villandi“ og „blekkjandi“ niðurtalningu sem hvetur börn til að hafa hraðar hendur og kaupa vöruna hratt ellegar hverfi hluturinn þegar tíminn er liðinn. Það var þó ekki alltaf raunin að hluturinn hyrfi. 

„Með þessari ákvörðun erum við að senda skýr skilaboð: börn verða að geta spilað tölvuleiki án þess að verða fyrir óþarfa áreiti,“ segir Cateautje Hijmans van den Bergh, stjórnarmaður ACM. 

Breytingin muni leiða til lélegrar upplifunar fyrir spilara

Epic Games er gert að framfylgja ákvörðun ACM fyrir 10. júní, en framleiðandinn hefur þegar gert nokkrar breytingar á leiknum. Ein þessara breytinga felur í sér að nú er engin blekkjandi, eða villandi niðurtalning í verslun leiksins, að sögn AMC. 

Þá hefur verið gerð ein breyting sem nær einungis til hollenskra notenda en hún snýr að því að einungis er boðið upp á vörur í verslun leiksins sem eru fáanlegar í 48 klukkustundir eða lengur. 

„ACM er þeirrar skoðunar að Epic Games sé að fylgja bindandi fyrirmælum með því að innleiða ofangreindar breytingar,“ að því er fram kemur í yfirlýsingunni. Þar segir jafnframt að það verði metið eftir 10. júní hvort framleiðandinn hafi gert þær breytingar sem krafist er. 

Í yfirlýsingu Epic Games segir þó að breytingarnar muni leiða til „lélegrar upplifunar fyrir leikmenn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert