Munu sækja hart að Cohen

Michael Cohen á leið í dómsal í gær.
Michael Cohen á leið í dómsal í gær. AFP/Michael M. Santiago

Búist er við því að lögmenn Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, muni sækja hart að fyrrverandi lögmanni hans, Michael Cohen, í vitnastúku seinna í dag.

Cohen, sem starfaði sem „reddari” Trumps í mörg ár er núna aðalvitnið í dómsmáli þar sem sá síðarnefndi er sakaður um að hafa hylmt yfir greiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels upp á 130 þúsund dollara, eða um 18 milljónir króna, fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Donald Trump í dómsal í gær.
Donald Trump í dómsal í gær. AFP/Sarah Yenesel

Aðeins sex mánuðir eru þangað til forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram. Þar vonast Trump til að endurheimta pláss sitt í Hvíta húsinu á kostnað núverandi forseta, Joes Bidens.

Cohen svaraði spurningum frá saksóknurum í meira en fimm klukkustundir í gær og búist er því við að verjendur Trumps taki við keflinu af þeim í dag.

Cohen lýsti því fyrir rétti í gær hvernig hann útvegaði Daniels peninga til að koma í veg fyrir að hún myndi tjá sig opinberlega um meint ástarsamband hennar og Trumps árið 2006.

„Ég gerði allt sem ég gat til að vernda yfirmann minn, sem var eitthvað sem ég hafði lengi gert,” sagði Cohen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka