Hótar að segja sig úr þjóðstjórninni

Benjamín Netanjahú og Benny Gantz.
Benjamín Netanjahú og Benny Gantz. AFP

Benny Gantz, einn af fimm ráðamönnum innan ísraelsku þjóðstjórnarinnar, segir að hann muni segja sig frá þeim störfum ef Benjamín Netanjahú forsætisráðherra samþykkir ekki aðgerðaáætlun sem snýr að Gasasvæðinu eftir að stríðinu lýkur.

Gantz segir að þjóðstjórnin verði að samþykkja áætlunina fyrir 8. júní, annars muni hann og flokkur hans segja sig frá henni.

Meðal markmiða aðgerðaáætlunarinnar er að steypa Hamas-samtökunum af stóli, tryggja að Ísrael stjórni öryggiseftirliti í Palestínu og að ísraelsku gíslunum verði sleppt úr haldi.

Brestir í þjóðstjórninni

Netanjahú brást við hótunum Gantz og sagði kröfur hans vera „útþynnt orð með skýrri merkingu: Stríðið skuli enda með tapi Ísraels, flestir gíslanna verði yfirgefnir, Hamas-samtökunum verði leyft að halda velli og að palestínskt ríki verið stofnað.“ 

Brestir hafa komið upp innan ísraelsku þjóðstjórnarinnar undanfarna daga eftir að Hamas-liðar fóru að safna liði á ný í norðurhluta Gasa, svæði þar sem Ísraelar sögðust hafa verið komnir með yfirráð á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert