Ók á ofsahraða á móti umferð og uppi á stétt

Ökumaður á fimmtugsaldri var handtekinn í kvöld eftir að lögregla veitti honum eftirför í Voga- og Laugarneshverfi. Mikil hætta er sögð hafa stafað af aksturslagi mannsins, sem keyrði á ofsahraða í vistgötum.

Eins og mbl.is greindi frá í kvöld stóð mikil lögregluaðgerð yfir í Voga­hverfi í Reykja­vík þar sem lög­reglu­menn eltust við lít­inn fólks­bíl. 

Lögreglu hafði borist tilkynningar frá vegfarendum um kl. 19 í kvöld um undarlegt aksturslag mannsins en hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna, að sögn Unnars Más Ástþórssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um átta mínútum síðar var maðurinn handtekinn. Unnar segir í samtali við mbl.is að svo virðist sem aðeins einn hafi verið í bílnum.

Margir urðu vitni að háskaför ökumannsins, auk þess sem að mikið sír­enu­væl heyrðist í hverf­inu.

Olli mikilli hættu

„Þetta er eftirför sem hefst í Vogahverfinu, hún fer um það hverfi og upp að Glæsibæ og þangað aftur til baka þar sem hann er stoppaður aftur í hverfinu,“ segir aðalvarðstjórinn.

Ökumaðurinn hafi þar valdið mikilli hættu með aksturslagi sínu, meðal annars með því að aka á ógnarhraða á móti umferð og uppi á gangstétt. Ekkert bendir til þess að nokkurn hafi sakað.

„Hann er núna komin í varðhald hjá okkur. Það verður skýrsla tekin af honum annað hvort í kvöld eða á morgun,“ segir Unnar enn fremur. „Svo verður bara tekin ákvörðun með framhaldið.“

Sérsveitin aðstoðaði við aðgerðirnar, samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra. Aðgerðin var þó á vegum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Margir urðu vitni að háskaför ökumannsins og eftirför lögreglu.
Margir urðu vitni að háskaför ökumannsins og eftirför lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert