Lyklakippur gegn ofbeldi

Tótla I. Sæmundsson er á leið til Síerra Leóne en …
Tótla I. Sæmundsson er á leið til Síerra Leóne en þar eru lyklakippur búnar til sem notaðar eru til að fjármagna starf Barnaheilla. mbl.is/Ásdís

Átján einstaklingar í Síerra Leóne unnu hörðum höndum í fjóra mánuði við gerð lyklakippa sem nú lenda í höndum Íslendinga, og fengu ríkulega greitt fyrir vinnu sína. Ágóðinn af sölunni á þessum litríku lyklakippum verður notaður til að styðja við vernd gegn ofbeldi á börnum hér á landi en einnig til að valdefla og styðja fjölskyldur sem búa við kröpp kjör í Síerra Leóne. Framkvæmdastjórinn Tótla, sem tók við starfinu í janúar, segir frá því góða starfi sem starfsfólk Barnaheilla vinnur.

„Mér líst mjög vel á nýja starfið. Við erum alþjóðahreyfing og erum að vinna að mörgum verkefnum hér heima og víðs vegar um heim,“ segir Tótla.

Ofbeldisforvarnir í Afríku

„Við erum málsvari barna og stuðlum að heilbrigði og velferð þeirra. Við rekum fjögur verkefni í Afríku sem snúa að ofbeldisforvörnum, í Síerra Leóne og Líberíu og í Kongó vinnum við með götubörnum sem hafa meðal annars sloppið úr klóm vígahópa,“ segir hún og segir að starfsmenn alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children vinni vinnuna þar en þau sjái um fjármögnun og skipulag.

Vorsöfnun Barnaheilla í gegnum sölu lyklakippa hófst 2. maí og verða söluaðilar víða um land á næstu dögum.

„Ég er einmitt að fara til Síerra Leóne til að taka út verkefnið og sjá hvernig gengur,“ segir Tótla og segir Barnaheill starfa í suðausturhluta Síerra Leóne. Lyklakippuverkefnið er unnið í samstarfi við Regínu Bjarnadóttur hjá Aurora Foundation.

Lyklarkippurnar eru afar litríkar og fallegar.
Lyklarkippurnar eru afar litríkar og fallegar.

„Það er mikilvægt að vita hvaðan þetta kemur og að verkefnið skapar atvinnu á þeim svæðum sem við störfum á. Það voru búnar til sex þúsund lyklakippur og verða seldar á þrjú þúsund krónur stykkið, bæði á sölustöðum og á heimasíðu okkar,“ segir Tótla en hún hyggst einnig skoða forvarnarverkefni Barnaheilla í Síerra Leóne sem gengur afar vel.

Ítarlegt viðtal er við Tótlu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert