Barnalög endurskoðuð til að bregðast við

Dómsmálaráðuneytið hefur skipað nefnd til að taka barnalög til heildarendurskoðunar.
Dómsmálaráðuneytið hefur skipað nefnd til að taka barnalög til heildarendurskoðunar. Ljósmynd/Colourbox

Dómsmálaráðuneytið telur líklegt að bregðast þurfi við skráningu barna sem fæðast án aðkomu fagfólks með lagabreytingu. Nefnd hefur verið skipuð til að taka barnalög til endurskoðunar. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is í tengslum við fæðingar án aðkomu fagfólks.

mbl.is greindi frá því í síðustu viku að þrjú börn hefðu fæðst án aðkomu fagfólks á Íslandi það sem af er ári og sex á því síðasta. Þar kom fram að ljósmæður hefðu meðal annars áhyggjur af því að ekkert verklag væri til um skráningu þessara barna og því teldu þær einungis tímaspursmál hvenær mansalsmál af þessu tagi kæmi upp. 

Líklega þörf á lagabreytingu 

mbl.is greindi frá því að Þjóðskrá Íslands hefði vakið athygli á málinu í ljósi hlut­verks stofn­un­ar­inn­ar sem er að skrá börn inn í kerfið eft­ir gögn­um sem ber­ast frá heil­brigðis­stofn­un­um eða sjálf­stætt starf­andi ljós­mæðrum. 

Í kjölfar þess hefur dómsmálaráðuneytið átt samtöl við Þjóðskrá um álitaefnið, er varðar  skráningu barna sem fæðast án aðkomu fagfólks í þjóðskrá, meðal annars í tengslum við vinnu við reglugerð um form og framkvæmd skráningar barna í þjóðskrá á grundvelli barnalaga, að því er fram kemur í svari ráðuneytisins. 

„Samtöl við stofnunina um framangreint hafa þó leitt í ljós að lagabreytingar þurfi líklega til að bregðast við umræddu álitaefni, þ.m.t. mögulegar breytingar á barnalögum nr. 76/2003.“

Sifjalaganefnd þegar tekið til starfa  

Vinna við endurskoðun lagana er þegar farin af stað og hefur til þess verið skipuð sifjalaganefnd skipuð þremur fulltrúum. Nefndin er tekin til starfa og er hlutverk hennar að taka barnalög til heildarendurskoðunar. 

Í svari ráðuneytisins segir að nefndin hafi fengið umsögn frá Þjóðskrá Íslands þar sem bent er á umrætt álitaefni, auk þess sem hún hefur fundað með ýmsum hagsmunaaðilum vegna endurskoðun barnalaga og hjúskaparlaga, m.a. Þjóðskrá Íslands.

„Samkvæmt Þjóðskrá Íslands hefur stofnunin fundað með Landspítalanum og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna málsins en stofnunin telur mikilvægt að tekið sé á umræddu álitaefni í lögum. Umræddu álitaefni hefur því verið beint til sifjalaganefndar að því er varðar barnalög,“ segir í svarinu og bent á að Hrefna Friðriksdóttir sé formaður nefndarinnar. 

Þörf á aðkomu þriggja ráðuneyta 

Þá er vakin athygli á því að lög um skráningu einstaklinga og reglugerð um skráningu einstaklinga heyri undir innviðaráðuneytið. Auk þess hafi Þjóðskrá Íslands bent á að mikilvægt sé að staðfesting komi frá heilbrigðisyfirvöldum á því að tiltekinn einstaklingur hafi líklega gengið með og alið barn.

Þannig hafi ekki verið hægt að skrá barn fyrr en slík staðfesting lægi fyrir og því þyrfti einnig aðkomu heilbrigðisyfirvalda að málinu, segir í svarinu. 

Er þetta í samræmi við orð Will­um Þórs Þórs­sonar heil­brigðisráðherra sem fyrir helgi tók undir áhyggjur ljós­mæðra og annarra heil­brigðis­starfs­manna af fjölg­un fæðinga án aðkomu fag­fólks á Íslandi og sagði það til skoðunar innan ráðuneytisins hvort bregðast þyrfti við með einhverjum hætti. Til að mynda með end­ur­skoðun á lagaum­hverf­inu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert