Ekki taka skjáhættuna

Allt bendir til þess að fólk sem notar síma við …
Allt bendir til þess að fólk sem notar síma við akstur sé fjórum sinnum líklegra til að lenda í slysi. mbl.is

Samgöngustofa í samvinnu við tryggingarfélagið Sjóvá hefur ákveðið að hrinda af stað herferð gegn farsímanotkun sem ber yfirskriftina: Ekki taka skjáhættuna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samgöngustofu en þar segir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telji að akstur vegna farsímanotkunar sé einn stærsti áhættuþáttur umferðarslysa í heiminum.

„Allt bendir til þess að fólk sem notar síma við akstur sé fjórum sinnum líklegra til að lenda í slysi. Þá er tuttugu og þrisvar sinnum líklegra að fólk sem les og eða skrifar skilaboð meðan á akstri lendi í slysi.

Þótt það hafi færst í vöxt að fólk noti handfrjálsan búnað þegar það talar í símann undir stýri þá hefur farsímanotkun án slíks búnaðar einnig aukist sem er miður,“ segir í tilkynningunni.

Hættulegt að tala í síma undir stýri

„Það er hættulegt að tala í síma undir stýri. Þú ert fjórum sinnum líklegri til að lenda í slysi ef þú ert í símanum heldur en ef þú er það ekki,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar Samgöngustofu. „Ef þú skrifar skilaboð á meðan þú ekur bíl þá eru tuttugu og þrisvar sinnum meiri líkur á að þú lendir í slysi.“

Rannsóknir hafa sýnt að truflun af völdum farsíma skerðir frammistöðu bílstjóra á ýmsa vegu. Viðbragðstíminn verður lengri einkunn við hemlun en einnig viðbrögð við umferðarmerkjum og ljósum.

Rannsóknir Samgöngustofu sýna að tæplega sextíu prósent ökumanna segja að farsímanotkun annarra ökumanna í umferðinni trufli þá eða auki álag á þá við akstur. Ef skoðað er hvaða hópar truflast mest við notkun annarra á farsíma í umferðinni sést að þessi hegðun hefur mest áhrif á fólk á aldrinum 18-34 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka