Frambjóðendur svara: Baldur Þórhallsson

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi.
Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi. mbl.is/Arnþór

Baldur Þórhallsson, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segist hafa rannsakað í yfir 30 ár hvernig smáríki geti haft áhrif í samfélagi þjóðanna, komið í veg fyrir krísur og unnið úr þeim komi þær upp. Segist hann hafa barist fyrir mannréttindum allra í samfélaginu í áratugi.

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Baldurs er að á milli hans og þjóðar sé beint og milliliðalaust samband. Forseti verði án undantekninga að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar efst í huga.

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eft­ir fara svör Baldurs við spurn­ing­um mbl.is og Morg­un­blaðsins:

Baldur er einn þeirra tólf sem bjóða sig fram í …
Baldur er einn þeirra tólf sem bjóða sig fram í embætti for­seta Íslands í kom­andi for­seta­kosn­ing­um. mbl.is/Arnþór

Hvað finnst þér mik­il­væg­ast við embætti for­seta Íslands?

„Á milli þjóðar og forseta er beint og milliliðalaust samband og forseti verður alltaf, án nokkurra undantekninga, að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar efst í huga.

Forseta ber að virða þingræðið í öllum megin atriðum og honum ber að tryggja að í landinu sé starfhæf ríkisstjórn á grundvelli vilja Alþingis.

En á sama tíma verður hann að vera tilbúinn til þess að grípa í neyðarhemil og vísa málum til þjóðarinnar þegar þess gerist þörf. Forsetinn þarf alltaf að standa vaktina, og standa vörð um þjóðina.“

Hvað hef­ur þú helst fram að færa til embætt­is­ins um­fram aðra fram­bjóðend­ur?

„Í yfir 30 ár hef ég rannsakað hvernig smáríki geta haft áhrif í samfélagi þjóðanna, hvernig smáríki eins og Ísland getur komið í veg fyrir krísur og hvernig slík ríki eigi að vinna úr krísum ef þær koma upp.

Í áratugi hef ég jafnframt barist fyrir mannréttindum allra í samfélaginu. Ég tel að þessi reynsla muni nýtast mér vel við að tryggja hagsmuni Íslands erlendis og að láta gott af okkur leiða hér heima og um heim allan.“

Á maki for­seta að hafa form­lega, launaða stöðu?

„Aldrei án undangenginnar umræðu í þinginu um þá grundvallar breytingu á hlutverki maka forseta.“

Á for­seti að vera virk­ur þátt­tak­andi í þjóðmá­laum­ræðu?

„Forseti hefur beint vald og óbeint vald. Hluti af óbeina valdi forseta er að hann hefur vægi í þjóðfélagsumræðu. Ég hef sagt að ég myndi sem forseti forgangsraða nokkrum málum til að ná raunverulegum árangi í þeim.

Ég hef sérstaklega bent á mikilvægi þess að forgangsraða málefnum barna og ungmenna, mannréttindum allra í samfélaginu og sjálfbærri nýtingu auðlindanna.“

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lög­um staðfest­ing­ar: rök stjórn­ar­and­stöðu, mót­mæli, ráðgjöf eða eig­in dómgreind?

„Alþingi ræður för í allri almennri löggjöf í landinu. Ef þingið samþykkir hins vegar lög sem takmarka á einhvern hátt mannréttindi borgaranna, myndi ég vísa því máli til þjóðarinnar.

Það sama ætti við ef Alþingi myndi gera grundvallar breytingu á stjórnskipun landsins eins og til dæmis ef Alþingi samþykkti aðild að Evrópusambandinu án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eins ef þingið gengi fram af þjóðinni þannig að þingið og þjóðin gengi engan vegin í takt.“

Hver eru brýn­ustu viðfangs­efni Íslend­inga nú og hvað hef­ur for­seti til þeirra mála að leggja?

„Síaukin skautun í samfélaginu veldur mér verulegum áhyggjum og ég tel að forsetinn geti undið ofan af þeirri þróun. Með því að tala landið upp sem eina heild, eitt atvinnusvæði, eitt menningarsvæði, eitt menntasvæði, eitt samgöngusvæði og eitt heilbrigðissvæði, getum við þjappað okkur saman og þannig byggt ofan á þann trausta grunn sem fyrri kynslóðir skilja eftir sig.

Þvert á það sem maður myndi ætla hérna á strjálbýlli eyju í Norður Atlantshafi höfum við byggt upp samfélag sem sættir sig ekki við neitt annað en að vera borin saman við það allra besta sem býðst í heiminum. Það gerðum við með því að standa saman.

Brýnasta verkefni næsta forseta Íslands er að efla þessa samstöðu sem er forsenda fyrir því að næstu blaðsíður Íslandssögunnar verði áþekkar þeim fyrri.“

Hver er hæfi­leg­ur tími í embætti fyr­ir for­seta?

„Forseti er kjörinn til fjögurra ára í senn og þjóðin en ekki forseti ræður því hvort framhald verði á.

Það er engum hollt að sitja of lengi í valdastöðu og við erum svo heppinn að búa við vel grundaða og trausta lýðræðishefð og ég treysti þjóðinni fullkomlega fyrir því verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert