Twitter hótar Meta með lögsókn

AFP

Twitter íhugar nú að lögsækja Meta, móðurfyrirtæki Facebook og Instagram, vegna nýja samfélagsmiðilsins Threads.

Fréttastofa BBC greinir frá þessu á vefsíðu sinni.

Eins og áður hefur verið greint frá setti Meta nýja miðilinn í loftið í gær en síðan þá hafa yfir 30 milljón notendur skráð sig á Threads. Threads er ekki í boði í ríkjum innan Evrópusambandsins eins og stendur. Miðillinn líkist um margt Twitter en notendur geta tjáð sig í 500 stafabilum á Threads.

Bannað að svindla

Elon Musk, eigandi Twitter, sagði á Twitter að hann fagni samkeppni en að hann fyrirlíti svindl í tengslum við nýja miðilinn. Meta hefur hafnað öllum ásökunum um að fyrrverandi starfsmenn Twitter hafi hjálpað til við að setja Threads á laggirnar.

Lögmaður Twitter, Alex Spiro, sendi Mark Zuckerberg, eiganda Meta, bréf á miðvikudaginn varðandi málið. Í bréfinu sakaði hann Meta um að hafa vísvitandi og með kerfisbundnum hætti notað viðskiptaleyndarmál og hugverk Twitter til að skapa Threads. 

Hann sakaði jafnfram Meta um að hafa ráðið tugi starfsmanna sem höfðu áður verið á snærum Twitter og höfðu enn aðgang að viðskiptaleyndarmálum fyrirtækisins. Hann krafðist þess að Meta myndi leggja niður starfsemi Threads og hótaði að lögsækja Meta. 

Náðu á einum degi því sama og Twitter á fjórum árum

Höfundarréttarlög Bandaríkjanna verja ekki hugmyndir og þyrfti Twitter því að sanna fyrir dómstólum að kóði samfélagsmiðilsins hafi verið notaður til að setja upp Threads.

Samkvæmt skýrslu Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC) tók það Twitter fjögur ár að öðlast jafn marga notendur og Threads safnaði á einum degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert