Hóta dagsektum upp á 13 milljónir króna

Meta hyggst skoða kröfur norsku persónuverndarstofnuninnar.
Meta hyggst skoða kröfur norsku persónuverndarstofnuninnar. AFP/Lionel Bonaventure

Norska persónuverndarstofnunin hefur bannað Meta, móðurfyrirtæki Facebook og Instagram, að nýta persónuupplýsingar neytenda fyrir persónumiðaðar auglýsingar.

Ef Meta verður ekki við fyrirmælum stofnunarinnar hyggst hún leggja daglegar sektir á fyrirtækið sem nema 100 þúsund bandaríkjadölum, eða um 13 milljónum íslenskra króna.

Grannt er fylgst með viðskiptaháttum bandarískra stórfyrirtækja um gervalla Evrópu vegna áhyggja um meðferð persónuupplýsinga. Hafa stjórnvöld víða gripið til útgáfu sekta í von um að vernda friðhelgi einkalífs almennings.

Telja viðskiptahættina ólöglega

„Norska persónuverndarstofnunin telur að viðskiptahættir Meta séu ólöglegir og ætlar því að setja tímabundið bann á persónumiðaðar auglýsingar,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

Samkvæmt fyrirmælum stofnunarinnar á bannið að hefjast 4. ágúst og vara þrjá mánuði. Á það að gefa Meta tíma til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana.

Matthew Pollard, talsmaður Meta, sagði að fyrirtækið ætlaði að skoða kröfur stofnunarinnar en að ekki yrði gripið til aðgerða strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert