Vildu hafa garðinn stóran hluta af heimilinu

Lovísa Traustadóttur á pallinum.
Lovísa Traustadóttur á pallinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lovísa Traustadóttir framkvæmdastjóri Flexi.is er með antík blómapotta úti á pallinum sem hún fann erlendis. Hún hannaði tekkgarðhúsgögnin sjálf og nýtur þess að hvíla sig á bambuspallinum heima hjá sér. Hún hefur mikinn áhuga á pallaefni, klæðningum og parketi úr bambus.

„Ég hef alltaf haft áhuga á að skapa fallegt umhverfi í kringum mig og er hluti af vörulínu okkar í Tekk-garðhúsgögnunum teiknaður af mér,“ segir Lovísa sem er iðnrekstrarfræðingur með meistarapróf í forystu og stjórnun.

Lovísa er gift Valdimari Óskarssyni og bjuggu þau hjónin úti í Hollandi um árabil. Hún segir þann tíma hafa mótað þau mikið. Ekki síst þegar kemur að því að hreiðra um sig í garðinum.

„Fyrstu árin í Hollandi fóru mikið í að koma krökkunum inn í skólakerfið. Ég fór síðan í hollenskunám og tók einnig námskeið í listum. Þegar börnin voru komin í rútínu úti fór ég að vinna í Rotterdam.

Eftir nokkur ár erlendis fórum við að hugsa um að flytja aftur heim. Ég sá auglýstar lóðir í nýju hverfi í Hafnarfirði í Áslandi og við sóttum um. Umsækjendur voru dregnir úr potti og við vorum eins og svo oft í lífinu ótrúlega heppin. Við fengum stóra endalóð í botnlanga þar sem garðurinn snýr í suður og allur dalurinn við húsið er friðaður sem veitir okkur óskert útsýni yfir Keili og Suðurnesin. Þegar við fórum að liggja yfir teikningum vorum við með fullt af hugmyndum sem voru innblásnar af veru okkar í Hollandi. Við komum okkur í samband við Moso International og fengum okkur bambusparket á gólfin og höfum unnið með því fyrirtæki síðan þá.“

Lovísa og Valdimar byrjuðu að byggja árið 2000 en þá bjuggu þau enn þá erlendis.

„Við létum teikna fyrir okkur grunnhugmyndir að garðinum áður en við fórum að byggja til að tryggja að rétt undirefni væri á hverju svæði strax frá byrjun. Síðan fórum við í miklar pælingar. Þegar við bjuggum í Hollandi var garðurinn svo stór hluti af okkar heimili, enda leggja Hollendingar mikið upp úr fallegum görðum. Við elskum að sitja úti, njóta náttúrunnar, lesa bækur og eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Öll hönnun miðast við að búa til skjól.

Við hönnuðum útisvæðið með það í huga að það væri að mestu viðhaldsfrítt. Við létum stimpla allar stéttir og blönduðum það saman við bambuspallaefni frá Flexi.is sem er sérstaklega harðgert, gegnheilt og viðhaldsfrítt þar sem við látum það grána með árunum.“

Það sem er áhugavert við bambuspallaefnið er hversu umhverfisvænt það er.

„Bambusefnið myndar ekki spennu og flísar eru ekki vandamálið. Festingarnar koma inn á hlið og eru því ekki sýnilegar. Við lögðum áherslu á að hafa allt útlit einfalt og er garðurinn í japönskum stíl sem er ef til vill áhrif af ferðum okkar til Asíu.“

Lýsingin í garðinum lágstemmd

Öll lýsing í garðinum er hönnuð af Holger Gíslasyni í Rafkaupum.

„Lýsingin er lágstemmd og ljósin neðarlega þar sem áhersla er lögð á að lýsa upp beðin og niður á stéttar og palla.“

Lovísa bendir á hversu mikilvægt er að bæta jafnt og þétt við útisvæðið í stað þess að ætla sér að gera allt á einu bretti.

„Að búa til flottan garð getur oft tekið tíma. Við notum heita pottinn mjög mikið og bættum svo við gufubað á pallinn fyrir tveimur árum sem hefur slegið í gegn á heimilinu. Síðsta sumar settum við upp pergólu úr bambusstoðum með glæru plexigleri á pallinn og verkefni sumarsins verður að smíða útieldhús úr bambus sem er að sjálfsögðu viðhaldsfrítt og fær að grána eins og annað á pallinum.“

Hannaði tekkhúsgögnin sjálf

Þegar Lovísa bjó í Hollandi fengu þau Valdimar sér tekkborð og -stóla í garðinn.

„Það sett hefur staðið úti í 23 ár og er enn þá glæsilegt. Fyrir tveimur árum fór ég að horfa í kringum mig til að finna falleg viðhaldsfrí húsgögn og komst að því að það væri lítið í boði. Eftir smá undirbúning flaug ég til Hollands og hitti aðila sem er með verksmiðju í Indónesíu sem smíðar háklassahúsgögn úr vottuðum skógum. Þetta átti í fyrstu bara að vera fyrir garðinn okkar en svo kom hver vinkonan á eftir annarri sem fór að spyrjast fyrir um þetta og úr varð að við fórum að flytja inn útihúsgögnin og höfum fengið frábærar viðtökur við þeim. Það munar svo miklu að eiga húsgögn sem þarf ekki að byggja skúr fyrir til að geyma á veturna. Húsgögnin eru þung svo þau eru ekki fjúkandi út um allt. Stór hluti af vörulínunni er innblásinn af ítölskum stíl. Línan er einföld og er ekki öskrandi á athygli heldur fellur svo smart inn í umhverfið.“

Nú skipta litir miklu máli úti. Hvað völduð þið þessu tengt?

„Við leggjum mikla áherslu á að umhverfið sé stílhreint. Við erum með hvítt hús með svörtu þaki, stimplaðar stéttir með svörtum lit og bambuspallaefni sem við látum grána eins og tekkgarðhúsgögnin sem við veljum að bera ekki á heldur láta grána með árunum.“

Vilja njóta á pallinum

Eruð þið að rækta eitthvað í garðinum?

„Við erum með talsvert af fjölærum plöntum og gráa kvarssteina í beðunum til að losa okkur undan arfaplokki. Við höfum líka leikið okkur aðeins með útlit. Við erum sem dæmi með stórt grenitré fyrir framan hús sem við skárum og klipptum í kúlu.

Við hjónin vinnum bæði mikið og viljum því nota okkar frítíma til að njóta þess að vera í garðinum, spila golf og þess háttar. Því fannst okkur lykilatriði að gera garðinn þannig að hann væri að mestu viðhaldsfrír með mikið notagildi.“

Lovísa var búin að leita að pottum í mörg ár undir plönturnar í garðinum.

„Ég vildi potta sem gætu verið úti allt árið um kring og fann ekkert sem mér fannst nógu spennandi. Ég fór aftur af stað og hitti belgískt fyrirtæki. Þetta fyrirtæki sérhæfir sig í því að kaupa fornvörur í Asíu sem eiga sína sögu og ég kolféll fyrir þessu. Flutti pottana inn og er að selja þá í gegn um Flexi.is og facebooksíðuna Tekk Garðhúsgögn. Pottarnir eru allir nytjapottar frá árinu 1850-1900. Engir tveir pottar eru eins og allir með sinn karakter og sögu,“ segir Lovísa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál