„Ef það er skjól þá er hægt að vera með ákveðnar gerðir af plöntum“

Gurrý í Garðinum í Hveragerði, Garðyrkjuskólanum
Gurrý í Garðinum í Hveragerði, Garðyrkjuskólanum Eggert Jóhannesson

Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur vill lita umhverfið með blómum. Hún er hrifin af blómum af öllum gerðum og stærðum en þessa stundina er hún sérstaklega með hugann við fjölærar plöntur og er að prófa sig áfram með slíkar plöntur við sumarbústaðinn sinn.

„Fjölærar plöntur vaxa upp að vori frá rótakerfinu, laufgast og blómstra yfir sumarið og fella svo blöð og stöngla um haustið. Það er rótakerfið sem í rauninni lifir yfir veturinn, þær safna forða í ræturnar og vaxa svo aftur upp næsta vor. Svo er ein og ein tegund sem er sígræn. Þá eru þær með laufblöð uppi við allt árið, þær eru þó ekki margar þó þær finnist en hinar eru algengari sem fella öll blöð og stöngla,“ segir Guðríður, eða Gurrý eins og hún er kölluð, en hún sendi nýlega frá sér bókina Fjölærar plöntur.

Gurrý segir í rauninni alveg magnað að plönturnar lifi veturinn af og blómstri svo aftur hvert sumar. „Kosturinn við að fella blöðin og stönglana yfir veturinn er að rótakerfið fær skjól í jarðveginum yfir veturinn og oft liggja blöðin og stönglarnir yfir rótakerfinu. Besti veturinn fyrir svona plöntur er þegar snjóteppi liggur yfir öllu og hlífir þeim. Það er eins og að vera með hlýja sæng,“ segir Gurrý og segir plönturnar upp til hópa duglegar og harðgerðar þó nokkrar séu meiri prímadonnur.

Hófsóley. Myndin er í bókinni Fjölærar plöntur eftir Guðríði.
Hófsóley. Myndin er í bókinni Fjölærar plöntur eftir Guðríði. Ljósmynd/Guðríður Helgadóttir

Sumarblóm eða fjölærar plöntur?

Ekki er hægt að segja að það sé minni vinna að sinna fjölæru plöntunum en sumarblómum þó það þurfi ekki að gróðursetja á hverju ári. Gurrý getur ekki gert upp á milli – bæði er betra.

„Fjölærar plöntur bæta við sig á hverju ári, þær stækka og stækka. Það þarf að gróðursetja þær eins og allar plöntur. Þær koma upp og blómstra í ákveðinn tíma, yfirleitt er blómgunartíminn hjá þessum plöntum á bilinu tvær til fjórar vikur. Síðan tekur næsta tegund við og svo koll af kolli. Sumarblómin eru yfirleitt í blóma í lengri tíma yfir sumarið og þess vegna eru þau svo vinsæl af því að við fáum lit yfir svo langan tíma. Sumarblómin deyja eftir sumarið og svo þarf að planta nýjum sumarblómum aftur næsta vor. Þegar þau eru sett niður eru þau lítil og krúttleg og svo í lok sumars eru þau stór og krúttleg,“ segir Gurrý.

„Fjölæru plönturnar eru alltaf að bæta við sig, fyrsta sumarið eru þær litlar, annað sumarið eru þær farnar að taka við sér og bæta við sig stönglum og þriðja sumarið eru þær orðnar bústnar og fallegar plöntur. En vinnan við þær er í raun og veru sú að fyrst þarf að gróðursetja þær eins og með sumarblómin, svo þarf að gefa þeim áburð á vorin og svo aftur á miðju sumri, af og til þarf að bæta við mold í beðin. Þetta er bara hefðbundin garðavinna. Þegar fjölæru plönturnar eru orðnar stórar (sumar hverjar eiga það til að verða töluverðar skessur), þá þarf að taka plöntuna, annaðhvort að stinga utan af henni með stunguskóflu til að minnka hana eða hreinlega taka hana upp, skipta henni og setja einn partinn niður og gera eitthvað við restina. Gefa til dæmis vinum og vandamönnum eða setja hana á einhvern annan stað í garðinn eða í sumarbústaðalandið,“ segir Gurrý. Hún segir að sumar plöntur vaxi í áraraðir á sama stað en í öðrum tilvikum þarf að huga að skiptingu eftir þrjú til fjögur ár. Plöntur hafa nefnilega mismunandi persónueinkenni. Hún nefnir sem dæmi randagras sem er frekar skriðult og mætti jafnvel kalla það frekjudós í garðinum.

Blómaker í sumarbústaðnum.
Blómaker í sumarbústaðnum. Ljósmynd/Aðsend

Falleg blöð ekki síður mikilvæg

Þegar Gurrý er spurð hvar sé best að byrja þegar garðeigendur ætla að skreyta garðinn með fjölærum plöntum segir hún það fara eftir vaxtarskilyrðum í hverjum garði fyrir sig.

„Ef það er skjól þá er hægt að vera með ákveðnar gerðir af plöntum, ef það er skuggi þá þarf að velja plöntur í samræmi við það. Ef um sólríkan stað er að ræða þarf að velja plöntur sem vilja vera sólarmegin í lífinu. Svo þarf að velta fyrir sér hvort jarðvegurinn sé þurr eða rakur. Við þurfum að horfa á skilyrðin sem við höfum og svo getum við valið plöntur út frá því. Ef garðurinn er skuggsæll þarf að huga að því að velja blaðfallegar plöntur því yfirleitt þurfa fjölærar plöntur beina sól hluta úr degi til að geta blómstrað. Það er í raun heppni ef plöntur blómstra á skuggsælum stöðum. Á svona staði þurfum við því að velja saman plöntur út frá laufblöðunum til að fá fjölbreytnina í beðið. Við getum verið með plöntur með fínleg blöð eins og ýmsar burknategundir og líka verið með plöntur sem eru með breið blöð eins og brúskur. Svo eru til plöntur sem eru með mismunandi liti í laufblöðunum eins og græn blöð með hvítum eða gulum skellum og þá fáum við fjölbreytnina í beðið út frá blaðforminu og blaðlitnum en við vitum að fáum ekki mikið af blómum á þessum stöðum.“

Gurrý segir gaman að huga að blöðunum hvort sem plantan blómstrar eða ekki þar sem plantan er aðeins í blóma í nokkrar vikur hvert sumar. Einnig er um að gera að huga að því hvernig haustlitirnir eru. „Mér finnst sumarið vera svo stutt að þá vil ég hafa það litríkt. Við eigum svo mikið af fallegum harðgerðum fjölærum plöntum sem geta lífgað upp á sumarið. Við eigum bara að krydda tilveruna með blómum.“

Ljósmynd/Aðsend

Elskar vinnuna sína

Margir tala um að garðvinnu sem einskonar slökun eða núvitund. Þrátt fyrir að Gurrý vinni við garðyrkju skilur hún þessa hugmynd afskaplega vel. „Ég upplifi ekki vinnuna mína sem vinnu. Ég fæ að tala um blóm á kaupi heilu og hálfu dagana við fólk sem hefur brennandi áhuga á því en það eru nemendur mínir í Garðyrkjuskólanum. Þegar ég mæti í vinnuna líður mér eins og ég sé að fara skemmta mér. Þetta er ekki þannig að mér finnist að nú verði ég að fara að afplána vinnudaginn. Ég er sennilega spenntust af öllum í kennslustundum þegar ég fæ að tala um blóm í langan tíma.“

Gurrý er ekki með garð heima hjá sér en er þess í stað að rækta upp sumarbústaðalandið sitt. „Við erum enn á því stigi að koma okkur upp góðu skjóli. Ég missi mig alveg í sumarblómaræktuninni. Svo er maður að setja niður fjölæringa hér og þar og sjá hvernig þeir ganga úti í móa af því að ég er ekki komin með mikið af blómabeðum en það er á planinu. Það er fullt af grasi sem mér finnst mjög gaman að slá, fullt af blómum, kryddjurtir og dálítið af matjurtum. Ég vel aðallega tegundir sem mér finnast fara vel með íslensku plöntunum. Ég sé nú ekki fyrir mér að vera með stífan skrúðgarð í sumarbústaðnum en ég vil hafa litina. Mér finnst gaman að sjá blágresi með stór blóm við hliðina á íslenska blágresinu þannig að ég er svona aðeins að krydda umhverfið. Svo er ég hrifin af gömlum harðgerðum plöntum eins og silfursóley með hvíta fallega hnappa.“

Frönsk ilmfjóla.
Frönsk ilmfjóla. Ljósmynd/Guðríður Helgadóttir

Gurrý talar um garðinn og blómin sín eins og hún sé að lýsa málverki á listasafni. Spurð hvort hún sé listræn á öðrum sviðum segir hún svo ekki vera. „Ég er gjörsneydd hæfileikum á listaverkasviðinu. Það eru aðrir betri í því. Ég vinn hér með blómaskreytingadrottningum sem taka gamalt stígvél, gallabuxur, gaddavír og eina rós og búa til listaverk úr þessu. Mér finnst þetta vera galdrar. Ef ég tek gamalt stígvél, gaddavír og eitthvað þá lítur það bara út fyrir að vera það en ekki listaverk,“ segir Gurrý.

Að lokum mælir Gurrý með að skoða sig um í gróðrarstöðvum sem hún líkir einna helst við afslöppunarferð erlendis. „Þegar ég fæ bilaða þörf fyrir að vera innan um gróður fer ég í hvíldarinnlögn í gróðrarstöð. Ef maður er að byrja rækta plöntur og langar að gera fallegan garð þá er það alveg ómissandi að fara inn í gróðrarstöðvarnar og búðirnar sem eru að selja plöntur og skoða gróður,“ segir Gurrý. „Maður getur alltaf á sig blómum bætt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál