Ræktunaráhuginn gerði Sirrý að súrefnisfíkli

Sirrý Arnardóttir er flestum landsmönnum kunn enda á hún að baki 30 ára farsælan feril sem fjölmiðlakona. Henni er þó margt fleira til lista lagt, eins og garðrækt. Hún býður upp á kaffi í sólstofunni sinni þar sem blaðamaður sest niður umvafinn blómum, salati og kryddjurtum. 

Sirrý býr í gömlu húsi með fallegum garði í Litla-Skerjafirði og segir ræktunaráhugann hafa kviknað þegar hún var að vinna hjá Skógræktinni í Fossvoginum á menntaskólaárunum.

„Ég tel mig hafa verið lánsama að vinna þarna því ég varð súrefnisfíkill fyrir lífstíð. Mitt hlutverk var að vera í plöntusölunni og þá þurfti ég að læra mjög mikið um plönturnar. Þessi vinna mótaði mörg okkar sem unnum þarna. Nokkrir lögðu þetta fyrir sig og lærðu skógrækt eða garðyrkju og einhverjir fóru að starfa við útivist,“ segir Sirrý og bætir við að hún hafi haft einhverja þörf fyrir að dýfa fingrunum í mold. „Þegar ég og maðurinn minn, Kristján Franklín, fluttum þetta gamla hús hingað var í raun ekkert hér nema möl því þetta var gamla tívolílóðin í Reykjavík. Við stækkuðum húsið og svo þurftum við að skipta alveg um jarðveg með eigin höndum, sem var mikil vinna fyrir okkur en þá vorum við með eins árs gamalt barn, Harald Franklín, og þetta var töluvert verkefni en skemmtilegt. En þetta gerir það að verkum að húsið og garðurinn verða manni kærari fyrir vikið. Það er dýrmætt að sitja og horfa á fuglana í eplatrjánum og virða fyrir sér stórt reynitréð sem var jafnstórt og eins árs gamall sonur okkar þegar það var gróðursett.“

Garðurinn hjá Sirrý er hæfilega stór með góðum palli, ágætum grasfleti, nokkrum beðum og gróðurhúsi. „Þetta er góð stærð af garði fyrir okkur en mér finnst pallurinn algerlega ómissandi, hann er á milli 40 og 50 fm. Þessi skjólgóði pallur stækkar svo húsið, við drekkum morgunkaffið oft þar og svo fáum við okkur hádegis- og kvöldmatinn úti ef vel viðrar. Félagslífið í húsinu færist í raun út í garð á sumrin, mér finnst það ótrúlega gefandi,“ segir hún, mjög sannfærandi.

Fékk eplatré í fimmtugsafmælisgjöf

Í garðinum eru fjölbreyttar plöntur og blóm sem Sirrý segir þau hjónin hafa ræktað að miklu leyti sjálf en bætir við að stundum hafi þau reynt að rækta eitthvað sem ekki hafi gengið sem skyldi. „Við höfum prófað ýmislegt í gegnum árin, og í raun má segja að við séum alltaf að prófa eitthvað nýtt. Í fyrra vorum við mjög upptekin af gúrkum, kartöflum og jarðarberjum og og núna er ég með mikið af kryddjurtum og salati. Fyrir nokkrum árum gróðursetti ég eplatré sem fuglarnir sóttu mikið í en það gaf aldrei af sér ávöxt. Þegar ég varð svo fimmtug þá skildi afmælisgestur eftir lítið eplatré á tröppunum hjá mér sem ég gróðursetti skammt frá hinu eplatrénu. Fjórum árum síðar blómstraði það fullt af dásamlegum, hvítum og bleikum blómum og leit út eins og brúðarvöndur. Það haust komu svo u.þ.b. 250 epli á trén. Eplin voru ekki nógu sæt til að borða beint af trjánum en frábær í matargerð og bakstur. Ég gerði margar eplabökur það árið. Við erum núna með þrjú eplatré en það þarf ólíkar tegundir til að eplatrén frjóvgist og gefi af sér ávöxt,“ bætir Sirrý við og augljóst að hún veit ýmislegt þótt hún vilji alls ekki gefa sig út fyrir að vera einhver sérfræðingur.

Býr til úrvalsmold úr moltu

Sirrý segir það gefa sér ótrúlega mikið að rækta sitt eigið grænmeti. „Það er eitthvað einstaklega gefandi og skemmtilegt að geta skroppið út í garðinn sinn til að ná sér í góðgæti í matinn sem maður hefur sjálfur ræktað. Það er svo auðvelt að rækta margt, ég er til dæmis með hindberjarunna, rabarbara, mismunandi tegundir af salati og alls konar kryddjurtir.“ Þegar hún er spurð hvort hún sé meira fyrir grænmetisræktun en almenna blóma- og trjáræktun segir hún svo ekki vera en bætir við að þetta vinni samt vel saman. „Það er ótrúlega sniðugt að blanda þessu saman. Ég er til dæmis með myntu í garðinum sem hefur dreift sér mjög víða en hún kemur í veg fyrir að ég þurfi að verja miklum tíma í að reyta arfa. Að sama skapi get ég skroppið út í garð og náð mér í endalaust af myntu sem ég nota í matargerð og drykki. Mér finnst þessi hringrás svo skemmtileg. Annað sem við gerum er að vera með moltu. Maðurinn minn smíðaði þrískiptan moltukassa, í fyrsta hólfið fara matarafgangar eins og eggjaskurn, kaffi og bananahýði, svo færist þetta yfir í næsta hólf og svo eftir svolítinn tíma í það þriðja og þá er komin úrvalsmold sem við notum í beðin.“

Varð hissa þegar hún áttaði sig á hversu auðvelt er að rækta

Sirrý segir ræktun vera miklu auðveldari en margur heldur. „Ég man þegar ég prófaði að rækta rúkólasalat í fyrsta sinn, ég varð bara hissa hvað þetta var auðvelt, eiginlega reiddist ég við að sjá hvað þetta var dýrt úti í búð því þetta vex bókstaflega eins og arfi. Mér finnst mikilvægt að rækta því ég tel það vera gefandi bæði fyrir líkama og sál og svo er það þjóðfélags- og umhverfislega gott og ábyrgt. Við ættum í raun öll að rækta eitthvað, hvort sem það er í glugganum, á svölunum eða í garðinum. Hvers vegna er til dæmis ekki moltukassi við öll fjölbýlishús? Þá væri vistvæn hringrás og garðurinn fengi góða mold. Það er dýrt að flytja inn grænmeti og matur á Íslandi er ekki ódýr svo ræktun getur sparað peninga og hún er góð fyrir umhverfið.“ Sirrý segist rækta allt milli himins og jarðar og ítrekar að það sé auðvelt að rækta margt. „Ég hef ræktað agúrkur, gulrætur, rófur, kartöflur, jarðarber, kryddjurtir, ýmsar káltegundir, rabarbara og hindber með góðum árangri.“

Mæðgin sem deila ræktunaráhuga

Lítið gróðurhús er í garðinum sem Sirrý og Haraldur Franklín, eldri sonur þeirra hjóna, nota mikið til að rækta græðlinga. Margir þekkja Harald en hann er atvinnukylfingur og því oft í íþróttafréttum. „Haraldur er ástríðufullur ræktandi, hann tók það upp hjá sjálfum sér fyrir nokkrum árum að byrja að rækta. Hann hefur eflaust erft einhvern áhuga frá okkur og svo var hann í skólagörðunum.“ Sirrý bætir við að Haraldur reki sjálfur þennan áhuga til þess að hann sé svo mikið í gróðursælu umhverfi þegar hann keppi á golfmótum erlendis. Þar séu mikið af fallegum plöntum og skógum sem hafi vakið forvitni hans. „Hann notar oft tímann þegar hann er einn á erlendum mótum til þess að lesa sér til um plöntur og horfir gjarnan á myndbönd um ræktun og garðyrkju til að afla sér upplýsinga og læra. Haraldur er alger nörd í þessu og hann er að rækta alls konar tegundir upp af fræjum í sínum frítíma. Gróðurhúsið í garðinum er hálfgerð ræktunarstöð en honum finnst skipta miklu máli að leggja sitt af mörkum til umhverfisins. Hann gróðursetur plönturnar til dæmis á Snæfellsnesi og svo gefur hann vinum og vandamönnum plöntur. Það er mikill fengur fyrir mig að hafa svona grúskara í þessu með mér. Hann er úti um allt að finna fræ og koma alls konar plöntum til og er mjög klár í því. Ég vökva svo plönturnar á meðan hann er erlendis að keppa svo við vinnum vel saman.“

Engin geimvísindi að rækta

Ekki stendur á svörum þegar Sirrý er spurð út í ráð fyrir þá sem langar að rækta en þekkja lítið til. „Þetta þarf ekki að vera fullkomið né flókið, engin geimvísindi. Það sem þarf er að hafa góða mold og gróðursetja annað hvort tilbúna plöntu eða sá fræjum á hlýjum stað. Ég nota gróðurhúsið eða sólstofuna og byrja svona í febrúar og mars að sá fræjum, svo þarf bara að vökva. Það er líka hægt að gróðursetja aftur ræturnar af salathausunum sem maður kaupir út í búð, þá vex nýtt salat, tveir fyrir einn,“ segir Sirrý og bætir við að þegar svolítið sé komið af græðlingum þurfi að setja í stærri potta.

Byrja að rækta basilíku

„Ég myndi ráðleggja þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref að byrja á því að rækta basilíku, hún er auðveld og hægt að nota í fjölbreytta rétti eins og út á tómata og mozzarella-ost og svo er hægt að gera pestó. Það tekur um viku fyrir basilíkufræ að byrja að spíra og gægjast upp úr moldinni og manni finnst það alltaf jafnmikið kraftaverk, eftir hálfan mánuð er bara fullt komið og þá þarf að setja í stærri potta. Það að sá sínu eigin fræi, vökva og sjá plöntu birtast er bara gott fyrir sálina og líka sjálfstraustið. Mér finnst mjög gaman þegar litla ömmustelpan mín, sem er tæplega eins árs, kemur í heimsókn og klípur af salatinu, basilíkunni og kóríanderinu og stingur upp í sig.“

Nýtur þess að vera úti

Eitt það skemmtilegasta við garðvinnuna segir Sirrý vera útiveruna. „Það er ótrúlega gaman að stússast í garðinum og anda að sér gróðurilminum. Það þarf ekki að vera með einhvern svaka garð sem gerður er af hönnuði og þetta þarf ekki heldur að vera dýrt, maður þarf bara vera óhræddur og fikra sig áfram. Ég er til dæmis enginn sérfræðingur þótt ég sé að rækta alls konar og hafi gaman af garðrækt,“ segir hún. Þótt hún rækti fjölda matjurta segir hún almenna plönturækt ekki síður vera hennar áhugamál og nefnir rósarunnana sem henni þyki mjög vænt um. „Eitt af því þægilegasta sem ég veit er að leggja mig í garðinum síðdegis þegar býflugurnar koma suðandi að sækja sér orku í rósirnar, það er mikil slökun fólgin í því. Ég held líka mikið upp á gullsópinn minn því það er svo góður ilmur af honum og guli liturinn er heillandi. Þegar hann er í blóma veit maður að þá er besti tími sumarsins, enn mikið eftir af sumrinu og einhvern veginn allt að gerast. Mér finnst gaman að segja frá því að þegar ég var að verða amma í fyrsta sinn þá gat ég náttúrlega ekkert sofið um nóttina á meðan beðið var eftir fréttum af fæðingunni. Ég kom niður um morguninn 30. júní til að fá mér kaffi og leit út um gluggann og þá höfðu allir rósarunnarnir sprungið út um nóttina. Ég fékk svo símtal frá syni mínum um að stúlka væri fædd og hún fékk í kjölfarið nafnið Rósa Björk. Þetta finnst mér skemmtileg tenging.“

Garðrækt á aldrei að vera skylda eða keppni

Sirrý segist ekki vilja taka sig of alvarlega í ræktuninni. „Ég nenni til dæmis ekkert endilega út í garð að vinna ef það er vont veður og ég er ekkert stórtækur ræktandi. Um tíma las ég í Garðyrkjuhandbók letingjans,“ segir hún og hlær. „Mér finnst brýnt að þetta verði ekki of mikil vinna, ég hef til dæmis mikið dálæti á burknanum hér í garðinum en hann hefur dreift sér víða, er sérlega fallegur, grænn alveg fram í október og kemur í veg fyrir að reyta þurfi mikinn arfa, hann auðveldar vinnuna. Mér finnst líka skemmtilegt að breyta til milli ára. Hver og einn ætti að rækta með sínu sniði og hafa gaman af þessu. Garðrækt ætti aldrei að vera skylda eða keppni,“ segir Sirrý brosandi um leið og hún virðir fyrir sér fuglana í trjánum fyrir utan gluggann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál