„Ég á erfitt með að hemja mig“

Steingrímur Þórhallsson veit fátt skemmtilegra en að rækta.
Steingrímur Þórhallsson veit fátt skemmtilegra en að rækta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steingrímur Þórhallsson, organisti í Neskirkju, er sveitastrákur inn við beinið. Þegar hann er ekki með hugann við tónlistina er hann með nefið ofan í moldinni eða inni í gróðurhúsi. Steingrímur er stórtækur í matjurtaræktun auk þess sem hann ræktar blóm

„Ég er að hluta til alinn upp í sveit, ég er með náttúrutengingu að norðan og er ekkert sérstaklega mikið borgarbarn. Mér finnst borgarlífið ekkert ægilega spes. Við bjuggum í Vesturbænum en um 2008 keyptum við gamalt einbýlishús í Kópavoginum með stórum garði,“ segir Steingrímur en hann segist hafa orðið spenntur fyrir garðvinnunni þegar hann flutti í Kópavoginn.

„Þetta byrjaði svona smátt og smátt. Þetta voru aðallega mistök til að byrja með en svo byrjaði eitthvað að virka og ég fór að fá salat í garðinn. Það eru líklega tíu ár síðan við fengum okkur plastbraggagróðurhús en þá var ég kominn á kaf í þetta og húsið orðið undirlagt, allir gluggar og öll skúmaskot voru með garðlömpum og gróðurljósum. Þegar matjurtirnar voru komnar úr gróðurljósunum þá fóru þær í gluggakisturnar og allir gluggar voru orðnir fullir í húsinu, það var ekkert voða skemmtilegt fyrir konuna mína. Þegar maður fær gróðurhús þá fær maður að sjá nýja hlið á þessu. Svo uppfærðum við gróðurhúsið fyrir nokkrum árum.“

26 tegundir af salati

Á meðal þess sem Steingrímur ræktar er salat, tómatar af ýmsum gerðum, kúrbítur, hvítlaukur, epli og kirsuber. Hann lætur ekki garðinn í Kópavogi nægja þar sem hann er byrjaður að rækta í sumarbústaðnum líka.

Ertu í framleiðslu?

„Ég er nánast í framleiðslu og hef notað þetta í fjáröflun fyrir kórinn hjá mér og kórastarf. Ég á erfitt með að hemja mig þegar kemur að svona hlutum. Á meðan sumir rækta kannski fimm morgunfrúr, tíu tóbakshorn og eina eða tvær tegundir af salati þá geri ég 100 stjúpur, 60 tóbakshorn og 26 tegundir af salati.“

Steingrímur er með stórt og mikið gróðurhús í garðinum.
Steingrímur er með stórt og mikið gróðurhús í garðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn stærsti kosturinn við ræktunina er sá að Steingrímur getur farið út í garð og náð sér í ferskar matjurtir. Hann segir tómatategundir ótrúlegar margar en þær fást ekki allar í búðum á Íslandi dagsdaglega. Hann dundar sér við að rækta nokkrar tegundir í gróðurhúsinu og jafnast ekkert á við sósu úr ferskum tómötum úr garðinum að hans sögn.

„Það er svo stjarnfræðilegur munur á því sem þú ræktar sjálfur og því sem þú kaupir úti í búð núna. Þú ert að fá svo miklar b-vörur. Matlaukur, hvítlaukur, salat og kúrbítur. Þetta verður þægilegt þegar maður kemst yfir erfiðasta tímann sem er í maí og fram í miðjan júní. Það er svo gott fyrir mann að hafa aðgang að þessu í staðinn fyrir að vera kaupa eitthvert drasl.“

Kötturinn heitir Mozartína og borðar salat.
Kötturinn heitir Mozartína og borðar salat. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ertu mikill mataráhugamaður líka?

„Að borða já, en ekki að elda. Konan mín sér um það.“

Er draumurinn að verða sjálfbær?

„Ég væri langmest til í að búa úti í sveit og rækta en það er ekki praktískt þegar maður ætlar að starfa sem organisti. Í febrúar, mars og apríl finnst mér gott að geta farið út í gróðurhús og verið þar í birtunni. Á þessum tíma í maí halda allir að ég sé búinn að vera í útlöndum en ég er bara búinn vera úti í garði.“

Steingrímur ræktar líka blóm.
Steingrímur ræktar líka blóm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætlar að rækta meira í sveitinni

Steingrímur er búinn að vera í um 15 ár að byggja upp garðinn og ræktunina heima hjá sér með þrotlausri vinnu. Flestir byrjendur gera þó hefðbundin mistök líkt og hann gerði.

„Í byrjun eru mistökin yfirleitt þannig að þú ert að rækta inni hjá þér og þá ertu ekki með nóg ljós og byrjar of snemma. Ef þú ert ekki með gróðurlampa er birtan í febrúar og mars yfirleitt of lítil. Hitinn getur verið of mikill og þá vex þetta of hratt vegna þess að það verður ójafnvægi milli hita og sólarljóss. Svo er mjög mikið atriði að nota góða mold og blanda með moltu eða skít. Það getur verið erfitt að finna góða mold á Íslandi. Ég hef aðgang að skít núna,“ segir Steingrímur sem finnst bagalegt hversu erfitt er nálgast góða moltu.

Steingrímur segir að það þurfi ekki mikið til eða stórt svæði ef fólk langar að prófa sig áfram í að rækta matjurtir í sumar. Hann mælir með að kaupa eitt bréf af salati og prófa jafnvel að rækta í potti. „Ef þú byrjar á einföldu salati þá finnurðu mun á hvernig er borða þitt eigið og kaupa úti í búð.“

Steingrímur ræktar kryddjurtir og notar í matargerð.
Steingrímur ræktar kryddjurtir og notar í matargerð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Ég er alltaf með ný yrki. Ég er að reyna að auka hvítlauksræktunina. Eins og ég segi er ég ekki bara með garð heima heldur líka úti í sveit og nú er markmiðið að stækka hann. Mig langar að færa ræktunina þangað eins og kartöfluræktunina og hvítlauksræktunina. Þú þarft ekki að sinna því svo mikið, þegar hún er komin af stað þá á hún bara að virka. Það er hins vegar aðeins erfiðara með viðkvæmari hluti eins og kúrbít og brokkólí,“ segir Steingrímur.

Ekkert jafnast á við heimaræktaða tómata.
Ekkert jafnast á við heimaræktaða tómata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Gróðurhúsið í Kópavoginum er fullt af plöntum.
Gróðurhúsið í Kópavoginum er fullt af plöntum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál