Sautján ára skoraði þrennu - Selfyssingar efstir

Jakob Gunnar Sigurðsson var á skotskónum fyrir Völsunga í Sandgerði.
Jakob Gunnar Sigurðsson var á skotskónum fyrir Völsunga í Sandgerði. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Jakob Gunnar Sigurðsson, 17 ára gamall leikmaður Völsungs frá Húsavík skoraði þrennu í dag þegar liðið vann stórsigur í þriðju umferð 2. deildar karla.

Völsungar sóttu þá nýliða Reynis heim til Sandgerðis og unnu 5:0 þar sem þeir Jakob Gunnar og Juan Guardia skoruðu sín tvö mörkin hvor í fyrri hálfleik og Jakob fullkomanði þrennuna á áttundu mínútu síðari hálfleiks. Þar við sat í markaskorun á Sandgerðisvelli.

Selfoss vann KFA 2:1 í uppgjöri tveggja liða sem búist er við í toppbaráttu en þau mættust á Selfossi. José  Lopez og Aron Lucas Vokes komu Selfyssingum í 2:0 en Eiður Orri Ragnarsson minnkaði muninn fyrir Austfirðinga tíu mínútum fyrir leikslok.

Í Ólafsvík var svipaður slagur á dagskrá þar sem Víkingar lögðu Þrótt úr Vogum að velli, 2:0. Luke Williams skoraði úr vítaspyrnu á 20. mínútu og innsiglaði svo sigurinn með öðru marki rétt fyrir leikslok.

Haukar og Ægir skildu jafnir á Ásvöllum í Hafnarfirði, 1:1. Mörkin komu bæði seint í fyrri hálfleik Djordje Biberdzic kom Haukum yfir en Dimitrije Cokic jafnaði fjórum mínútum síðar fyrir Ægi.

Loks vann Höttur/Huginn sigur á KFG úr Garðabæ, 3:2, í Fellabæ. Rafael Llop, Martim Cardoso og Sæbjörn Guðlaugsson skoruðu fyrir Hött/Hugin en Jón Arnar Barðdal og Guðmundur Ísak Bóasson gerðu mörk Garðbæinga.

Nýliðarnir í Kormáki/Hvöt gerðu góða ferð til Dalvíkur þar sem þeir sigruðu KF, 3:0. Sergio Oulu, Jón Gísli Stefánsson og Goran Potkozarac skoruðu mörk Húnvetninganna.

Eftir þrjár umferðir eru Selfyssingar einir með fullt hús, 9 stig, en Víkingur Ó., Ægir og Haukar eru með 7 stig hvert, KFA og Höttur/Huginn eru með 4 stig, Völsungur, KFG, Kormákur/Hvöt og Reynir Sandgerði eru með 3 stig, Þróttur úr Vogum er með 1 stig og KF situr stigalaust á botninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert