Afturelding komin í kjörstöðu

Birkir Benediktsson í leiknum í dag
Birkir Benediktsson í leiknum í dag mbl.is/Eyþór

Afturelding tók á móti Val í þriðja leik liðanna í undanúrslitum úrvalsdeildar karla í handbolta á Varmá í dag. Heimamenn voru sterkari aðilinn allan leikinn og unnu að lokum 26:25.

Greinilegt var strax í byrjun að Gunnar Magnússon hafði tekið varnarleik sinna mann í gegn, Valur átti í stökustu vandræðum með að finna sér skotfæri og Brynjar Vignir í marki Aftureldingar varði flest sem slapp í gegn. Brynjar Vignir varði 5 skot á fyrstu 11 mínútunum og í stöðunni 7:3 tók Óskar Bjarni tók leikhlé fyrir Valsmenn.

Afturelding hélt muninum í fjórum til fimm mörkum þar til undir lok hálfleiksins þegar Valsmönnum tókst að minnka í þrjú mörk og staðan í hálfleik 15:12 fyrir Mosfellinga. Munaði þar mest um að í liði Vals náðu hvorki Magnús Óli Magnússon né Benedikt Gunnar Óskarsson að skora. Tjörvi Týr skoraði 4 mörk fyrir gestina en Ihor Kopyshynskyi var markahæstur heimamanna með jafnmörg.

Blær Hinriksson
Blær Hinriksson mbl.is/Eyþór

Síðari hálfleikur var hnífjafn, munurinn hélst í þremur til fjórum mörkum og Valur náði ekki áhlaupi gegn sterkum Mosfellingum. Valur fékk tvö dauðafæri til að minnka muninn í eitt mark á lokamínútunum en hraðaupphlaup Ísaks Gústafssonar var varið af Jovan Kukobat og vítakast Benedikts fór hátt yfir markið. Valur náði að lokum að minnka muninn niður í eitt mark en þá voru 10 sekúndur eftir af leiktímanum og Afturelding hélt boltanum út leiktímann og sigldi sigrinum heim, 26:25.

Bestu menn Aftureldingar voru Ihor Kopyshynskyi og Birkir Benediktsson með fimm mörk hvor, Þorsteinn Leó og Birgir Steinn með sín hvor fjögur mörkin og Brynjar Vignir varði 12 skot í markinu.

Hjá gestunum voru Ísak, Tjörvi Týr Gíslason og Úlfar Páll Monsi Þórðarson með fjögur mörk hvor. Björgvin Páll Gustavsson varði 14 skot, þar af tvö víti.

Liðin mætast næst á miðvikudaginn og þarf Valur að vinna til að halda lífi í Íslandsmeistaradraumnum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Afturelding 26:25 Valur opna loka
60. mín. Björgvin Páll Gústavsson (Valur) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert