Stúlkur í handboltalandsliðum greiða 600 þúsund

Ljósmynd/Eva Björk

Leikmenn U18 og U20 ára landsliða stúlkna sem taka þátt í heimsmeistaramótunum í handbolta í sínum aldursflokkum í sumar þurfa að greiða um 600 þúsund krónur hver fyrir að taka þátt.

Þetta kemur fram á handbolti.is þar sem Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, staðfestir þessar tölur.

U20 ára landsliðið fer til Kína í lokakeppni HM í ágúst og U18 ára landsliðið fer til Norður-Makedóníu í lokakeppni HM í júní.

Róbert segir að kostnaður leikmanna í U18 og U20 ára landsliðum karla, sem taka þátt í Evrópumótum í sumar verði lítið eitt lægri en staðfesting á honum hafi ekki borist frá Handknattleikssambandi Evrópu.

Róbert segir jafnframt að lítið fáist frá Afrekssjóði og sambönd sem eigi mörg lið á stórmótum sé beinlínis hegnt fyrir góðan árangur.

„Meðan tekjurnar hækka ekki þá þyngist rekstur sambandsins, sem aftur leiðir til þess að við getum ekki greitt kostnað yngri landsliðanna eins mikið niður og við höfum gert undanfarin ár, sem aftur gerir að verkum að stór reikningur fellur á iðkendur, sem á ekki að eiga sér stað hér á landi," segir Róbert við handbolti.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert