Geðveiki sem keyrir mann áfram

Magnús Óli Magnússon í eldlínunni í kvöld.
Magnús Óli Magnússon í eldlínunni í kvöld. mbl.is/Óttar

Magnús Óli Magnússon lék mjög vel er Valur vann Olympiacos, 30:26, í fyrri leik liðanna í úrslitum Evrópubikarsins í handbolta í kvöld. Liðin mætast aftur í Aþenu eftir viku og getur Valur orðið fyrst íslenskra liða til að vinna Evróputitil.

„Þetta var geðveikt. Andrúmsloftið hérna inni, allt fólkið, dúkurinn, troðfull höll og stemningin. Þetta er geðveiki sem keyrir mann áfram. Við héldum í okkar plan allan tímann og förum með fjögurra marka forskot í seinni leikinn,“ sagði Magnús við mbl.is eftir leik.

„Mér leið bara nokkuð vel. Mér fannst við vera með þá í vörn í fyrri hálfleik. Við vorum að gera smá tæknifeila sem varð til þess að þetta var jafnt. Við gerðum minna af þeim feilum í seinni og nýttum þegar þeir gerðu mistök.

Magnús Óli ræðir við mbl.is í kvöld.
Magnús Óli ræðir við mbl.is í kvöld. mbl.is/Óttar

Í stöðunni 21:18 fann maður að þetta var orðið fínt forskot. Þá líður manni betur og fær meira sjálfstraust til að keyra á þetta. Fjögur mörk eru bara fínt. Við þurfum samt að gefa í, því við eigum inni,“ bætti hann við.

Stemningin á Hlíðarenda var stórkostleg í kvöld. „Það er eitthvað við þennan dúk, fulla höll og allt saman. Ég var með gæsahúð þegar ég var að hlaupa inn á völl og sjá alla.“

Búast má við erfiðum útileik í Aþenu en heimavöllur Olympiacos hefur reynst liðinu gríðarlega vel á leiktíðinni.

„Við ætlum að halda í okkar leikplan og fara á fullt. Við höfum heyrt að það er alvörugeðveiki þarna úti. Það er bara hálfleikur og fjögur mörk eru ekki neitt.

Við erum svekktir með hvernig Íslandsmótið fór en það gerir okkur enn staðráðnari í að klára þetta,“ sagði Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert